Innlent

Kyana verður ekki send úr landi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Kyana Sue Powers þarf ekki að yfirgefa landið eftir allt saman.
Kyana Sue Powers þarf ekki að yfirgefa landið eftir allt saman. Vísir/Arnar

Áhrifavaldurinn Kyana Sue Power verður ekki send úr landi líkt og átti að gera síðar í mánuðinum. Í dag fékk hún dvalar- og atvinnuleyfi frá Vinnumálastofnun. 

Frá þessu er greint á vef RÚV. Á þriðjudaginn var Kyönu tilkynnt að hún þyrfti að yfirgefa landið á næstu þrjátíu dögum eftir að kærunefnd útlendingamála hafnaði kæru hennar.

Kyana hefur verið búsett á Íslandi í tæp þrjú ár og fékk dvalarleyfi vegna náms í september árið 2020. Það rann hins vegar út í maí í fyrra. Á meðan hún var hér sem námsmaður varð hún ástfangin af landi og þjóð og sótti hún því um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Þann 10. mars síðastliðinn synjaði Vinnumálastofnun umsókn hennar um atvinnuleyfi.

Ellefu dögum síðar synjaði Útlendingastofnun dvalarleyfisumsókn hennar með vísan til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Hún kærði niðurstöðuna en kærunni var einnig synjað.

Kyana hafði stofnað fyrirtækið Kraftar Media sem sérhæfir sig í efnisgerð fyrir samfélagsmiðla, markaðssetningu og ráðgjöf.

Nýlega fékk Vinnumálastofnun þó í hendurnar ný gögn og breytti úrskurðinum. Samkvæmt RÚV voru upplýsingar í gögnunum frá fyrirtækjum sem Kyana hefur verið að starfa fyrir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×