Ef Sílemönnum verður að ósk sinni komast þeir á HM í Katar í lok árs á kostnað Ekvadors en FIFA hefur ekkert gefið út varðandi málið annað en að beiðnin hafi borist.
Ekvador endaði í 4. sæti undankeppninnar í Suður-Ameríku og tók þar með eitt af fjórum öruggum sætum Suður-Ameríku á HM. Síle endaði í 7. sæti, sjö stigum neðar en Ekvador.
Sílemenn hafa hins vegar lagt fram gögn sem þeir telja sýna að Byron Castillo, sem lék með Ekvador í undankeppninni, sé í raun og veru Kólumbíumaður og ekki gjaldgengur með Ekvador. Þeir benda á að ef að Ekvador yrði úrskurðað 3-0 tap í þeim leikjum sem Castillo spilaði þá ætti Síle að fá HM-sæti.
Wild story: Chile has filed a claim at FIFA seeking Ecuador's place in the World Cup. Chile says Ecuador's Byron Castillo is not only three years older than he and Ecuador say he is, but also Colombian. And it tells @tariqpanja it has the docs to prove it. https://t.co/Tn5ZgvSdYj
— Andrew Das (@AndrewDasNYT) May 5, 2022
HM í Katar hefst 21. nóvember og búið er að draga í riðla. Ekvador lenti í riðli með heimamönnum í Katar, Hollandi og Senegal. Undankeppninni er þó ekki alveg lokið og enn eru fimm laus sæti í gegnum umspil sem ræðst í sumar.
Dæmi er um það frá árinu 2016 að FIFA breyti úrslitum í HM-undankeppninni í Suður-Ameríku vegna ólöglegs leikmanns. FIFA úrskurðaði Bólivíu 3-0 tap í tveimur leikjum þar sem liðið tefldi fram leikmanni frá Paragvæ.