Enski boltinn

Man City skoraði sjö

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Khadija Shaw skoraði fjögur í dag.
Khadija Shaw skoraði fjögur í dag. Lynne Cameron/Getty Images

Manchester City gjörsigraði Brighton & Hove Albion í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeild kvenna í fótbolta, lokatölur 7-2 heimaliðinu í vil.

Segja má að Man City hafi gert út um leikinn á fyrsta stundarfjórðungi leiksins. Khadija Shaw braut ísinn á 3. mínútu og bætti öðru marki sínu við á 12. mínútu. Örskömmu síðar var staðan orðin 3-0 þökk sé marki Caroline Weir.

Gestirnir voru þó ekki alveg á þeim buxunum að gefast upp og minnkuðu muninn í 3-2 fyrir lok fyrri hálfleiks. Inessa Kaagman með fyrra markið og Julia Zigiotti Olme með það seinna.

Á meðan heimaliðið kom tvíeflt út í síðari hálfleikinn virtist sem gestirnir hefðu sofnað og gleymt að enn ætti eftir að spila 45 mínútur. Shaw fullkomnaði þrennu sína eftir tæplega klukkutíma og bætti við fjórða marki sínu skömmu síðar.

Alex Greenwood – sem hefur spilað með Man United, Liverpool og Everton ásamt Man City – kom heimaliðinu í 6-2 áður en Lauren Hemp skoraði sjöunda markið þegar enn voru 20 mínútur til leiksloka.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og leiknum lauk með 7-2 sigri Man City. Sigurinn kemur City upp í 3. sæti deildarinnar með 41 stig, tveimur stigum meira en Man United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×