Meistaradeildarvonir United orðnar nánast að engu eftir jafntefli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo sækir á vörn Chelsea.
Cristiano Ronaldo sækir á vörn Chelsea. Michael Steele/Getty Images

Manchester United og Chelsea skiptu stigunum á milli sín er liðin mættust í stórleik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Niðurstaðan varð 1-1 jafntefli, en stigið gerir lítið fyrir United í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Ekkert var skorað í fyrri hálfleik og því var staðan 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Það voru svo gestirnir í Chelsea sem tók forystuna eftir klukkutíma leik þegar Marcos Alonso stýrði skalla Kai Havertz í netið.

Forysta gestanna lifði þó ekki lengi því markahæsti leikmaður sögunnar, Cristiano Ronaldo, jafnaði metin tveimur mínútum síðar eftir fallega fyrirgjöf frá Nemanja Matic.

Hvorugu liðinu tókst að stela sigrinum og niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli.

Manchester United situr enn í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 55 stig þegar liðið á aðeins þrjá leiki eftir, fimm stigum á eftir Arsenal sem situr í fjórða og seinasta Meistaradeildarsætinu. United hefur aðeins unnið einn af seinustu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea situr hins vegar í þriðja sæti deildarinnar með 66 stig eftir 33 leiki og þarf aðeins sjö stig í viðbót til að gulltryggja sætir sitt í Meistaradeildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira