Fótbolti

Ráðist á hana í nóvember en núna er hún komin í agabann fyrir slagsmál

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kheira Hamraoui er í agabanni hjá Paris Saint-Germain og missir af einum stærsta leik tímabilsins hjá liðinu.
Kheira Hamraoui er í agabanni hjá Paris Saint-Germain og missir af einum stærsta leik tímabilsins hjá liðinu. Getty/Aurelien Meunier

Það eru áfram læti í kringum frönsku landsliðskonuna Kheira Hamraoui og nú er ljóst að hún verður ekki með Paris Saint-Germain í seinni undanúrslitaleiknum í Meistaradeildinni á móti Söru Björk Gunnarsdóttur og félögum í Lyon.

Liðin mætast aftur á laugardaginn en Sara og félagar unnu fyrri leikinn 3-2. Hamraoui er ekki í leikbanni heldur í agabanni hjá sínu eigin félagi.

Hinn 32 ára gamli miðjumaður lenti í slagsmálum við liðsfélaga sinn Sandy Baltimore á æfingu á laugardaginn var og af þeim sökum tók hún ekki þátt í fyrri leiknum. Parísarliðið hefur nú tekið þá ákvörðun að agabannið hennar nái út alla vikuna.  Hamraoui byrjaði lætin á því að móðga liðsfélaga sinn og það er mat forráðamanna félagsins að hún hafi verið gerandinn í þeim látum sem urðu meðal liðsfélaganna.

Franska blaðið Le Parisien segir agbannið því vera sett á til að róa leikmannahópinn fyrir þennan mikilvæga seinni leik þar sem sæti í úrslitaleiknum er í boði. Félagið ræddi við alla sem komu að þessum slagsmálum, ekki bara Hamraoui og Baltimore heldur einnig þær Kadidiatou Diani og Marie-Antoinette Katoto.

Það er ljóst að andrúmsloftið í liðinu er mjög slæmt og mikið um rifrildi og ósætti. Sumir leikmenn tala ekki við hvora aðra og stemmningin er sögð vera mjög súr. Agabann Hamraoui er einnig talið vera fyrsta skrefið í átt að losa sig við hana.

Kheira Hamraoui var mikið í fréttunum í nóvember þegar tveir grímuklæddir menn réðust á hana fyrir utan heimili hennar og liðsfélagi hennar Aminata Diallo var sökuð um að standa þar að baki og var rekin í yfirheyrslu.

Engar ákærur voru gefnar út og Diallo sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hún sagði þess ekkert satt í þessum ásökunum á hendur henni. Þær snéru báðar til baka í janúarmánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×