Fótbolti

Úkraínsku deildinni í fótbolta aflýst

Atli Arason skrifar
Volodymyr Boyko völlurinn í Maríupól. Myndin er tekin árið 2014.
Volodymyr Boyko völlurinn í Maríupól. Myndin er tekin árið 2014. World Football Index

Úkraínska knattspyrnusambandið lýsti því yfir í gær að deildarkeppninni í fótbolta í Úkraínu hefði verið aflýst.

Stríðið í Úkraínu hefur nú staðið yfir í rúma tvo mánuði, eða síðan 24. febrúar 2022. Herlög eru í gildi í landinu en enginn keppnisleikur hefur verið leikinn frá því að stríðið hófst. Á vídeófundi í gær var ákveðið að aflýsa deildarkeppninni þar sem ekki er séð fyrir því að hægt verði að klára hana eftir að herlög þar í landi voru framlengd, segir í tilkynningu frá deildinni.

Staðan í deildinni eins og hún var 24. febrúar síðastliðinn verður því loka niðurstaðan en engin verðlaun verða þó veitt. Shakhtar Donesk endar í fyrsta sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Dynamo Kiev.

Frekari ákvörðun varðandi hvaða lið falla og hvaða lið fara í Evrópukeppni er að vænta á næstunni eftir frekari fundarhöld forráðamanna deildarinnar ásamt fulltrúum liðanna. Úkraína fær tvö sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili en líkur eru á því að þeim fjölgar eftir að rússneskum liðum var meinuð þátttaka frá mótum evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA.

FC Mariupol endar tímabilið í neðsta sæti deildarinnar með 8 stig en leikvangur liðsins, Volodymyr Boyko völlurinn, er á því svæði í norðausturhluta Maríupól sem er nú undir stjórn rússneska hersins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×