Fótbolti

Enn eitt heims­metið hjá Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ágætis fjöldi það.
Ágætis fjöldi það. Pedro Salado/Getty Images

Evrópu- og Spánarmeistarar Barcelona halda áfram að brjóta glerþök en liðið setti í kvöld nýtt heimsmet í áhorfendafjölda á fótboltaleik kvenna. Fyrra metið var sett fyrr á þessu ári og nú er spurningin hvort Barcelona þurfi stærri heimavöll til að koma öllum sem vilja fyrir.

Barcelona tók á móti Sveindísi Jane Jónsdóttur og stöllum hennar í Wolfsburg í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. 

Þegar leikur Barcelona og Real Madríd í 8-liða úrslitum var færður á Nývang varð uppselt á örskotsstundu. Sama átti sér stað þegar miðar fóru í sölu fyrir leik Börsunga og Wolfsburg.

Að rjúka út eins og heitar lummur nær ekki yfir hversu hratt miðarnir ruku út. Það varð aftur uppselt á innan við mínútum nánast.

Allir Börsungar sem mættu á leikinn hafa fengið margfalt til baka þar sem Barcelona vann 5-1 stórsigur og er komið með annan fótinn í úrslitaleikinn.

Þegar leiknum var að ljúka var svo tilkynnt að félagið hefði slegið heimsmet í áhorfendafjölda. Aftur!

Alls mættu 91.648 manns á leik kvöldsins. Hvort það met verði slegið á næstunni á eftir að koma í ljós en þá þarf eflaust að gera endurbætur á Nývangi sem getur tekið 99.354 í sæti ef öll sæti vallarins eru fyllt. 

Vert er að taka fram að aðeins sáu rétt rúmlega 57 þúsund manns síðasta heimaleik karlaliðs Barcelona.

Það var þétt setið á Nývangi í kvöld en uppselt var á leikinn.Twitter@DAZNFootball



Fleiri fréttir

Sjá meira


×