Innlent

Dekk losnaði undan bíl og skoppaði niður Ár­túns­brekku

Atli Ísleifsson skrifar
Einn felguboltinn sem losnaði skemmdi framrúðu í öðrum bíl.
Einn felguboltinn sem losnaði skemmdi framrúðu í öðrum bíl. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út nokkru fyrir klukkan 21 í gærkvöldi þegar tilkynnt var um umferðaróhapp í Ártúnsbrekku í Reykjavík. Dekk hafði þar losnað undan bíl og skoppaði það svo niður Ártúnsbrekkuna án þess þó að lenda á öðru ökutæki.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að einn felguboltinn sem losnaði þegar dekkið fór undan bílnum hafi skollið á framrúðu bíls sem ók þar hjá og hafi framrúðan brotnað. Ökumenn hafi svo fyllt út tjónstilkynningu og Vaka sá um að fjarlægja bílinn.

Í dagbók lögreglu segir einnig frá því að klukkan hálf fjögur í nótt hafi lögregla stöðvað bíl á Suðurlandsvegi. Þar eru tveir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og voru þeir vistaðir í fangageymslu lögreglu. Eru mennirnir grunaðir um að hafa skipst á sætum þegar lögregla stöðvaði bílinn.

Um klukkan 17:30 í gær var tilkynnt um innbrot í geymslu fjölbýlishúss í Garðabæ. Þar var verkfærum og fleiri verðmætum stolið. Í nótt var svo einnig tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Hafnarfirði.

Skömmu fyrir klukkan 20 í gær var tilkynnt um slys í hverfi 110 í Reykjavík þar sem kona hafði kastast af hestbaki og lent á höfðinu. „Konan kenndi eymsla í hálsi og var hún flutt með sjúkrabifreið á Bráðadeild til aðhlynningar,“ segir í dagbók lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×