Kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins við Starfsgreinasambandið og Eflingu renna út í haust og því styttist óðum í að kjaraviðræður hefjist á ný.
Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir deilurnar innan hreyfingarinnar setja vondan tón fyrir kjaraviðræðurnar.
„Ég held að það sé einséð að þær verði mjög snúnar já. Þegar slíkt bætist við þá þessa ólgu sem verið hefur innan hreyfingarinnar veldur það mikilli óvissu inn í kjaraviðræður og mun vafalítið gera þær snúnari en ella,“ segir Þorsteinn sem nú starfar sem forstjóri BM Vallár.
Verkalýðshreyfingin sundruð
Hann bendir á að gríðarleg reynsla við kjaraviðræður hljóti að tapast innan Eflingar þegar öllu starfsfólki hefur verið sagt upp.
„Innan allra stéttarfélaga er gríðarlega mikil þekking og reynsla á undirbúningi kjaraviðræðna og framkvæmd þeirra og það er bara óljóst hver staðan verður á félaginu þegar út í viðræðurnar verður komið í haust,“ segir Þorsteinn sem man ekki eftir annarri eins stöðu innan verkalýðshreyfingarinnar.
„Segjum bara eins og er - það er bara stórfurðulegt að horfa upp á stéttarfélag koma með þessum hætti fram við starfsfólk sitt,“ segir Þorsteinn.
Hann furðar sig á að svo virðist sem sumir forystumenn annarra verkalýðsfélaga setji sig ekki upp á móti hópuppsögninni.
„Það hefði vakið furðu hér áður fyrr allavega að sjá slík viðbrögð við aðgerðum. Það er langt frá því einhver sátt innan hreyfingarinnar eða hægt að líta svo á að forystufólk þessara samtaka hafi óskorðað umboð félagsmanna sinna,“ segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár.