Fótbolti

Bayern við það að tryggja sér þýska meistaratitilinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það þarf bókstaflega allt að fara úrskeiðis hjá Bayern svo liðið verði ekki þýskur meistari tíunda árið í röð.
Það þarf bókstaflega allt að fara úrskeiðis hjá Bayern svo liðið verði ekki þýskur meistari tíunda árið í röð. Stuart Franklin/Getty Images

Þýska stórveldið Bayern München er nú aðeins hársbreidd frá því að tryggja sér sinn tíunda deildarmeistaratitil í röð eftir öruggan 3-0 útisigur gegn Arminia Bielefeld í dag.

Jacob Barrett Laursen skoraði fyrsta mark leiksins á tíundu mínútu þegar hann varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net áður en Serge Gnabry sá til þess að Bayern fór með 2-0 forystu inn í hálfleikinn með marki í uppbótartíma.

Það var svo Jamal Musiala sem gulltryggði sigur Bayern með marki á 85. mínútu og lokatölur því 3-0.

Bayern er nú með 72 stig á toppi þýsku deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir. Liðið er með níu stiga forskot á Borussia Dortmund sem situr í öðru sæti og því þarf Bayern aðeins einn sigur í viðbót til þess að Dortmund geti í besta falli jafnað liðið að stigum.

Þá er Bayern með það mikið betri markatölu en Dortmund að það þyrfti algjört kraftaverk til að Dortmund myndi koma í veg fyrir enn einn deildarmeistaratitil Bayern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×