Fótbolti

Enn eitt ungstirnið hjá Dortmund á skotskónum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ungstirninu vel fagnað.
Ungstirninu vel fagnað. vísir/Getty

Borussia Dortmund lék við hvurn sinn fingur þegar liðið fékk Wolfsburg í heimsókn í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag og lauk leiknum með 6-1 sigri Dortmund.

Fyrsta markið var skorað af hinum sautján ára gamla Tom Rothe sem var að þreyta frumraun sína með Dortmund en hann lék í stöðu vinstri bakvarðar.

Með markinu skráði hann sig á spjöld sögunnar í þýska boltanum þar sem hann er yngsti leikmaðurinn til að skora mark í sínum fyrsta leik í deildinni.

Dortmund er fyrir löngu orðið þekkt fyrir að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að skína og það sést berlega þegar litið er yfir yngstu markaskorara Bundesligunnar í sögunni.

Rothe, 17 ára og 169 daga gamall, fer í fjórða sæti þess lista en af tíu yngstu markaskorurunum hafa sex þeirra gert það fyrir Dortmund. 

Youssoufa Moukoko er yngstur í sögunni en hann var aðeins 16 ára og 28 daga gamall þegar hann skoraði fyrir Dortmund tímabilið 20/21. Aðrir leikmenn Dortmund á listanum eru Nuri Sahin, Christian Pulisic, Lars Ricken og Ibrahim Tanko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×