Aðeins tvö tilboð bárust í fyrsta útboðinu. Þegar þau voru opnuð þann 17. febrúar síðastliðinn reyndust þau bæði hátt yfir sjö milljarða króna kostnaðaráætlun. Það lægra frá Ístaki, upp á átta og hálfan milljarð króna, reyndist 21,5 prósenti yfir áætlun. Hærra tilboðið, frá ÞG verktökum, reyndist 40,5 prósentum yfir.

Tvö önnur stórverk, ný Ölfusárbrú við Selfoss og vegur yfir Öxi, milli Egilsstaða og Djúpavogs, eru einnig komin í útboðsferli á grundvelli sömu laga en útboð Ölfusárbrúar var auglýst í vikunni. Það er því mikið í húfi að þetta fyrsta verkútboð, Hornafjarðarfljót, klúðrist ekki.
Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar sagði fyrir þremur vikum að með breyttri nálgun ætti að freista þess að fá betri tilboð. Útboðinu yrði breytt þannig að núna yrðu framkvæmdin og fjármögnun á verktíma boðin út en langtímafjármögnun sérstaklega boðin út síðar.

Verkið sjálft er óbreytt en það felur í sér styttingu hringvegarins um tólf kílómetra og fækkun einbreiðra brúa. Verkinu fylgja alls fjórar nýjar brýr og nítján kílómetrar af nýjum vegum. Verkinu á að skila fullbúnu eigi síðar en 1. október 2025.
Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og tekið fram að bjóðendur þurfi að uppfylla hæfisskilyrði. Tilboðsfrestur rennur út þann 17. maí næstkomandi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 af málinu í síðasta mánuði: