Erlent

Tilnefning Ketanji Brown Jackson til hæstaréttar staðfest

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forseti, og Ketanji Brown Jackson, fylgdust með atkvæðagreiðslu öldungadeildarinnar.
Joe Biden, forseti, og Ketanji Brown Jackson, fylgdust með atkvæðagreiðslu öldungadeildarinnar. AP/Susan Walsh

Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti rétt í þessu tilnefningu Ketanji Brown Jackson til hæstaréttar þar í landi. Atkvæðagreiðslan fór að mestu eftir flokkslínum en 53 þingmenn greiddu atkvæði með tilnefningunni en 47 gegn henni.

Þeir þingmenn Repúblikanaflokksins sem veittu Jackson atkvæði sitt eru Susan Collins, Lisa Murkowski og Mitt Romney.

Jackson verður fyrsta þeldökka konan í Hæstarétti Bandaríkjanna þegar hún tekur sæti sitt í sumar. Þá mun dómarinn Stephen Breyer setjast í helgan stein.

Í Hæstarétti Bandaríkjanna sitja sex dómarar sem skipaðir voru í embætti af forseta úr Repúblikanaflokknum og þrír sem skipaðir voru af forseta úr Demókrataflokknum. Undanfarin ár hefur mikil heift færst í tilnefningaferli hæstaréttardómara.

Það má rekja til þess þegar Repúblikanar, sem stjórnuðu þá öldungadeildinni, neituðu að taka tilnefningu Merrick Garland til skoðunar árið 2016, tæpu ári áður en Barack Obama lét af embætti sem forseti Bandaríkjanna.

Þingmenn Repúblikanaflokksins voru flestir mjög harðorðir í garð hennar í tilnefningarferlinu og sökuðu hana ítrekað um linkind í garð barnaníðinga og um að vera vinstri sinnaða öfgakonu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×