Innlent

Harpa Ósk kjörin nýr skáta­höfðingi

Árni Sæberg skrifar
Harpa Ósk Valgeirsdóttir er nýr skátahöfðingi.
Harpa Ósk Valgeirsdóttir er nýr skátahöfðingi. Rita Osório

Harpa Ósk Valgeirsdóttir var í gær kjörin nýr skátahöfðingi Íslands. Hún var sjálfkjörin enda vilja skátar ekki það vesen sem fylgir kosningaslag og eru samstíga, að sögn Hörpu Óskar.

Skátaþing 2022 fer fram um helgina en það er aðalfundur Bandalags íslenskra skáta. Á fyrsta degi þess fór afhending heiðursmerkja fram, félagsforingjar fengu afhend skipunarbréf og nýr skátahöfðingi var kosinn einróma.

Harpa Ósk kveðst vera spennt fyrir nýju hlutverki í samtali við Vísi. „Það er rosa gaman að fá tækifæri til að leiða þessa hreyfingu til góðra verka. Skátahreyfingin er náttúrulega æsklýðshreyfing og það er gaman að fá að leggja línurnar og ég vona að ég geti náð að hvetja skátafélögin til góðs starfs. Mitt hlutverk er að hlúa að rammanum, búa til stuðningsefnið, sjá til þess að það sé góð leiðtogaþjálfun í gangi. Maður er dálítið svona bak við tjöldin að lyfta undir skátafélögin sem eru úti um allt land.

Harpa segir gaman að segja frá því að á þinginu var samþykkt ný jafnréttisstefna. „Við erum að ýta undir að auka aðgengi að skátastarfi fyrir öll börn á landinu. Hver svo sem búsetan er eða geta þeirra eða uppruni,“ segir hún.

Þá nefnir hún einnig að styrktarsjóður skáta hafi samþykkt að styrkja Skátasamband Úkraínu um 700 þúsund krónur, til að styrkja starf þess á þessum erfiðu tímum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×