Íslenski boltinn

Stjórnarmaður Hauka í bann vegna fölsunar

Sindri Sverrisson skrifar
Stjórnarmaður Hauka í Hafnarfirði, Ellert Ingi Hafsteinsson, má ekki sinna stjórnunarstörfum í fótbolta næstu sex mánuði.
Stjórnarmaður Hauka í Hafnarfirði, Ellert Ingi Hafsteinsson, má ekki sinna stjórnunarstörfum í fótbolta næstu sex mánuði. vísir/vilhelm

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur dæmt Haukum 3-0 tap gegn ÍH í Lengjubikar karla í fótbolta eftir að í ljós kom að Haukar tefldu fram ólöglegum leikmanni undir nafni leikmanns sem var í einangrun vegna kórónuveirusmits.

Haukar þurfa að greiða samtals 160.000 krónur í sektir vegna málsins og Ellert Ingi Hafsteinsson, meðstjórnandi í stjórn knattspyrnudeildar Hauka, var úrskurðaður í sex mánaða bann frá stjórnunarstörfum í knattspyrnu fyrir að bera ábyrgð á fölsun leikskýrslu.

Haukar skoruðu sex mörk í leiknum gegn engu marki ÍH en var dæmt tap þar sem að Gunnar Darri Bergvinsson kom inn á snemma í seinni hálfleik, þrátt fyrir að hafa ekki verið búinn að fá leikheimild eftir komuna til Hauka frá Dalvík/Reyni.

Báru við örvæntingu vegna manneklu

Leikur Hauka og ÍH fór fram 19. febrúar en Gunnar Darri fékk leikheimild viku síðar. Gunnar Darri hafði reyndar æft með Haukum frá áramótum en mistök réðu því að ekki var búið að ganga löglega frá félagaskiptum fyrir hann.

Vegna manneklu, meðal annars vegna kórónuveirusmita, voru Haukar aðeins með tvo löglega varamenn til taks og skráðu þeir Gunnar Darra undir öðru nafni sem þriðja varamann. Valið var nafn á leikmanni sem var heima vegna smits.

Haukar viðurkenndu að hafa falsað leikskýrsluna og báru við örvæntingu vegna manneklu. 

Fölsunin er í raun aðskilið brot frá því að tefla fram ólöglegum leikmanni. Fyrir að tefla fram ólöglegum leikmanni fengu Haukar 60.000 króna sekt og var dæmt tap, en fyrir að falsa skýrsluna vísvitandi fengu þeir að auki 100.000 króna sekt og ábyrgðaraðili, fyrrnefndur Ellert Ingi, sex mánaða bann frá störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×