Erlent

Leigir for­seta­vélina fyrir af­mæli og brúð­kaup

Atli Ísleifsson skrifar
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, hefur engan áhuga á að nýta vélina.
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, hefur engan áhuga á að nýta vélina. AP

Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, segir að hann muni láta leigja út rándýra forsetaflugvél sína, sem hann hefur engan áhuga á að nota, þar sem ekkert hefur gengið að selja hana.

Lopez Obrador er þekktur fyrir hófsemi og ferðast sjálfur bara með áætlunarflugi. Hann hefur sömuleiðis kallað vélina, sem er af gerðinni Boeing 787 Dreamliner og er í eigu forsetaembættisins, „móðgun við þjóðina“.

Forsetinn hefur nú ákveðið að koma vélinni í hendur félags á vegum mexíkóska hersins sem mun reka Felipe Angeles-flugvöllinn í Mexíkóborg, og verður félaginu ætlað leigja vélina út til að meðal annars standa straum af útgjöldum og viðhaldskostnaði vélarinnar. AP segir frá því að vélin verði þannig hugsuð til útleigu fyrir brúðkaup og veislur.

Lopez Obrador hét því í kosningabaráttunni 2018 að flugvélin yrði seld, næði hann kjöri sem forseti.

Það var Felipe Calderon, forseti Mexíkó á árunum 2006 til 2012, sem fyrirskipaði kaupin á vélinni, en eini forsetinn sem hefur nýtt vélina til þessa er forveri Lopez Obrador í embætti, Enrique Pena Nieto.

Vélin var á sínum tíma keypt fyrir um 27 milljarða króna og er hún sérstaklega innréttuð með svefnherbergi, baðherbergi og sæti fyrir alls áttatíu farþega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×