Fótbolti

Arnar svimaði að hlaupa á eftir Xavi og Iniesta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson á ágætis minningar frá leikjum gegn Spánverjum.
Arnar Þór Viðarsson á ágætis minningar frá leikjum gegn Spánverjum. getty/Alex Nicodim

Á blaðamannafundi í gær rifjaði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, hvernig það var að spila gegn spænsku snillingunum Xavi og Andrés Iniesta.

Ísland mætir Spáni í vináttulandsleik á Riazor í A Coruna klukkan 18:45 í kvöld. Þetta verður í fyrsta sinn sem Arnar stýrir íslenska landsliðinu gegn Spáni. Hann mætti hins vegar spænska liðinu tvisvar sem leikmaður, í undankeppni EM 2008.

Á blaðamannafundi í gær var Arnar spurður út í hvernig það hafi verið að mæta Spánverjum sem leikmaður. 

„Það er svo langt síðan. Ég er orðinn svo gamall. Þegar þú fékkst tækifæri sem leikmaður að spila gegn mönnum eins og Xavi og Iniesta voru það stóru augnablikin á ferlinum. Fyrir lið eins og Ísland og leikmann frá Íslandi var þetta draumur að rætast. En við vildum líka ná úrslitum,“ sagði Arnar.

Spánn vann nauman sigur á Íslandi í fyrri leiknum í undankeppni EM 2008, 1-0. Iniesta skoraði mark Spánverja níu mínútum fyrir leikslok. Seinni leikurinn á Laugardalsvellinum endaði með 1-1 jafntefli. Emil Hallfreðsson skoraði mark Íslendinga með flugskalla eftir fyrirgjöf Jóhannesar Karls Guðjónsson, núverandi aðstoðarþjálfara íslenska liðsins. en Iniesta jafnaði fyrir Spánverja. Tvö af fjórtán landsliðsmörkum Iniestas komu gegn Íslandi.

„Þetta minnir mig líka sem þjálfara á að það er mögulegt að ná úrslitum gegn heimsklassa leikmönnum og heimsklassa liðum,“ sagði Arnar.

„Ég man samt ekki mikið eftir leikjunum nema að mig svimaði svolítið að hlaupa á eftir Xavi og Iniesta,“ sagði Arnar. Hann var þó ekki eini leikmaðurinn sem var ringlaður við að spila gegn þessum mögnuðu fótboltamönnum.

Leikur Íslands og Spánn hefst klukkan 18:45 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

A

Albert Guðmundsson verður að öllum líkindum með íslenska fótboltalandsliðinu þegar það mætir því spænska í vináttulandsleik á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×