Fótbolti

Fyrsti leikur Íslands á EM einn sá fyrsti sem seldist upp á

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið virðist til alls líklegt á Evrópumótinu í Englandi í sumar en þar er liðið í riðli með Belgíu, Ítalíu og Frakklandi.
Íslenska landsliðið virðist til alls líklegt á Evrópumótinu í Englandi í sumar en þar er liðið í riðli með Belgíu, Ítalíu og Frakklandi. Getty/Omar Vega

Þegar er orðið uppselt á fyrsta leik Íslands á Evrópumóti kvenna í fótbolta í sumar, þegar liðið mætir Belgíu í Manchester 10. júlí.

Leikur Íslands og Belgíu er á meðal fjögurra fyrstu leikjanna á EM sem uppselt varð á í dag þegar opin miðasala hófst en áður höfðu verið seldir miðar í afmörkuð svæði fyrir stuðningsmenn liðanna.

Einnig er uppselt á úrslitaleik mótsins og á tvo leikja enska landsliðsins sem verður á heimavelli. Þar er um að ræða báða leiki enska liðsins á St Mary‘s, heimavelli Southampton, gegn Noregi og Norður-Írlandi.

Leikur Íslands og Belgíu fer fram á minnsta leikvangi mótsins, akademíuleikvangi Manchester City, en gagnrýnt hefur verið að spilað skuli á stórmóti á velli sem aðeins rúmar 4.700 áhorfendur.

Ísland mætir einnig Ítalíu á sama velli í Manchester, 14. júlí, en síðasti leikur liðsins í D-riðlinum er svo við Frakkland á New York-leikvanginum í Rotherham, 18. júlí. Þegar þetta er skrifað eru enn til miðar á báða þá leiki.

Sömuleiðis virðast að svo stöddu enn til miðar á fyrsta leik mótsins sem fram fer á Old Trafford en þá mætast England og Austurríki, 6. júlí.

Áður en að EM kemur er íslenska landsliðið núna á leið í tvo mikilvæga leiki í undankeppni HM, gegn Hvíta-Rússlandi og Tékklandi í byrjun næsta mánaðar.


Tengdar fréttir

Fyrirliði Svía tekur undir gagnrýni Þorsteins

Ísland og Svíþjóð spila á tveimur minnstu leikvöngunum á EM kvenna í fótbolta næsta sumar. Ekki eru allir á eitt sáttir við það að spilað sé á leikvöngum sem aðeins rúma nokkur þúsund manns. Karl-Erik Nilsson, varaforseti UEFA, segir hægt að skoða það að skipta um velli.

Þorsteinn segir völlinn í Manchester of lítinn

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, sat fyrir svörum eftir að ljóst var að Ísland verður í D-riðli með Frökkum, Ítölum og Belgum á EM sem fram fer í Englandi næsta sumar. Hann segir að hann telji að liðið eigi ágætis möguleika á að komast upp úr riðlinum, en að fyrsti leikur liðsins fari fram á of litlum velli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.