Fótbolti

Ísland í riðli með Frökkum, Ítölum og Belgum

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið hefur á síðustu dögum skorað níu mörk í tveimur sigrum, gegn Tékklandi og Kýpur. Næsta sumar bíða hins vegar mun erfiðari mótherjar á Evrópumótinu í Englandi.
Íslenska landsliðið hefur á síðustu dögum skorað níu mörk í tveimur sigrum, gegn Tékklandi og Kýpur. Næsta sumar bíða hins vegar mun erfiðari mótherjar á Evrópumótinu í Englandi. vísir/vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta dróst á ný í riðil með Frakklandi þegar dregið var í riðla fyrir EM sem fram fer í Englandi næsta sumar.

Sextán lið leika á EM og spila þar í fjórum fjögurra liða riðlum, þar sem tvö efstu lið úr hverjum riðli komast svo áfram í 8-liða úrslit.

Ísland var í neðsta styrkleikaflokki en mætir Frakklandi úr efsta flokki, Ítalíu úr öðrum flokki og Belgíu úr þriðja flokki.

Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik 10. júlí á akademíuleikvangi Manchester City. Ísland mætir svo Ítalíu á sama stað, 14. júlí. Lokaleikurinn í riðlinum er gegn Frakklandi 18. júlí, á New York leikvanginum í Rotherham. Tvö efstu liðin komast áfram í 8-liða úrslit og mæta þar liðum úr C-riðli.

A-riðill: England, Noregur, Austurríki, Norður-Írland

B-riðill: Þýskaland, Spánn, Danmörk, Finnland

C-riðill: Holland, Svíþjóð, Sviss, Rússland

D-riðill: Frakkland, Ítalía, Belgía, ÍSLAND

Ísland leikur í lokakeppni EM í fjórða skiptið í röð. Liðið var einnig með Frakklandi í riðli á EM 2017 og 2009 og tapaði báðum leikjum. 

Langt er síðan að Ísland mætti Ítalíu í mótsleik en liðin mættust í tveimur vináttulandsleikjum í apríl, fyrstu leikjum Íslands undir stjórn Þorsteins Halldórssonar, þar sem Ítalía vann 1-0 og liðin gerðu svo 1-1 jafntefli. 

Ísland mætti Belgíu síðast í Algarve-bikarnum árið 2016 og vann þá 2-1 sigur.

Textalýsingu frá drættinum í Manchester má sjá hér að neðan.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.