Fótbolti

Þorsteinn segir völlinn í Manchester of lítinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins, telur möguleika liðsins á að komast upp úr riðlinum góða.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins, telur möguleika liðsins á að komast upp úr riðlinum góða. Vísir/Hulda Margrét

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, sat fyrir svörum eftir að ljóst var að Ísland verður í D-riðli með Frökkum, Ítölum og Belgum á EM sem fram fer í Englandi næsta sumar. Hann segir að hann telji að liðið eigi ágætis möguleika á að komast upp úr riðlinum, en að fyrsti leikur liðsins fari fram á of litlum velli.

„Þetta leggst bara vel í mig. Ég held að þetta sé bara fínn riðill og að við séum í ágætis málum,“ sagði Þorsteinn.

Fyrstu leikir íslenska liðsins fara fram á akademíuleikvangi Manchester City, gegn Belgum 10. júlí og Ítölum 14. júlí. Þorsteinn segist hafa áhyggjur af því að færri Íslendingar komist að en vilja.

„Sem City aðdáanda finnst mér það allt í lagi, en persónulega finnst mér þetta allt of lítill völlur. Ég hef áhyggjur af því að í einhverjum tilfellum verði vandamál fyrir Íslendinga að fá miða á völlinn.“

Þorsteinn var svo spurður hvort að hann hefði viljað fá einhvern annan riðil, en hann segist ekki hafa mikla skoðun á því.

„Þetta er bara riðillinn sem við lendum í og við bara vinnum út frá því. Auðvitað hefði alltaf verið gaman að spila opnunarleikinn og allt það. En í sjálfu sér snýst þetta bara um að þetta er riðillinn sem við erum í og við einbeitum okkur að því og hættum að láta okkur dreyma um eitthvað annað.“

En hvernig metur Þorsteinn möguleika Íslands á því að komast upp úr riðlinum?

„Við eigum fína möguleika. Við spiluðum tvö hörkuleiki við Ítali í apríl og Frakkarnir eru náttúrulega alltaf sterkir en Belgía er alveg lið sem við eigum að geta unnið líka. Ég tel okkur eiga ágætis möguleika.“

„Við þekkjum orðið ítalska liðið nokkuð vel en það eru held ég komin tvö ár síðan Ísland spilaði seinast við Frakkland og tapaði í erfiðum leik. Frakkarnir eru góðir en við teljum okkur hafa tekið framförum og að við eigum góða möguleika á móti þeim. Belgana veit ég ekkert mjög mikið um en ef maður skoðar hlutina og hvernig þær líta út gagnvart stöðu á einhverjum styrkleikaflokk og við hverja þær hafa verið að spila þá tel ég okkur bara eiga ágætis möguleika á móti þeim,“ sagði Þorsteinn að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.