Viðburðurinn var haldinn á Luzhniki-leikvanginum í Moskvu en lögreglan segir rúmlega tvö hundruð þúsund manns hafa verið á leikvanginum og fyrir utan hann.
Tiltölulega sjaldgæft er að Pútin sjáist á viðburðum sem þessum, samkvæmt AP fréttaveitunni. Hann talaði um innrásina í Úkraínu sem réttmæta og vitnaði í fyrri fullyrðingar sínar um hið meinta þjóðarmorð á Rússum í Úkraínu, sem rússneskir ráðamenn hafa talað um að undanförnu.
Engar marktækar sannanir hafa verið færðar fyrir þessu þjóðarmorði og Úkraínumenn og aðrir þvertaka fyrir að það hafi átt sér stað.
Sagði innrásina nauðsynlega
Pútín sagði einnig að innrásin í Úkraínu hefði verið nauðsynleg því Bandaríkin væru að nota landið til að ógna Rússlandi. Þá hét Pútín því að Rússland myndi bera sigur úr býtum í Úkraínu.
Ráðamenn í Rússlandi hafa verið margsaga um ástæður innrásarinnar. Meðal annars hafa þeir sagt að Úkraína hafi ógnað Rússlandi með því að vilja ganga í NATO, að Úkraína og Bandaríkin hafi unnið að þróun efnavopna í Úkraínu og hafi ætlað að nota fugla til að dreifa þeim og að Úkraínumenn hafi unnið að þróun kjarnorkuvopna.
„Við vitum hvað við þurfum að gera, hvernig við eigum að gera það og hvað það kostar. Við munum ná fram öllum okkar markmiðum,“ sagði hinn 69 ára gamli forseti, samkvæmt frétt Reuters.
Fór fögrum orðum um hermenn
Hann fór fögrum orðum um rússneska hermenn og sagði þá styðja hvorn annan og jafnvel „skýla hvorum öðrum frá byssukúlum með eigin líkömum, eins og bræður“. Pútín sagði aðra eins samkennd ekki hafa sést í Rússlandi um langt skeið.
Yfirvöld í Rússlandi viðurkenndu fyrir þó nokkrum dögum síðan að tæplega fimm hundruð hermenn hefðu fallið í Úkraínu. Þá hefur verið gert ólöglegt að kalla innrásina innrás í Rússlandi og hægt er að dæma fólk í allt að fimmtán ára fangelsi fyrir að gagnrýna hana.
Það vakti mikla athygli að klippt var á sjónvarpsútsendinguna áður en ræðu Pútíns lauk en fljótt kom í ljós að það var vegna tæknilegra vandræða.
Sömuleiðis hefur vakið athygli að er hann ávarpaði fólkið og þjóðina, var Pútín klæddur í ítalska dúnúlpu sem sögð er kosta tæpar tvær milljónir króna.
According to @MoscowTimes, Putin was wearing a jacket worth almost $15,000 today during his Speech to the People. https://t.co/IbeRSZcGUO pic.twitter.com/WBircKxRxZ
— Kevin Rothrock (@KevinRothrock) March 18, 2022