Enski boltinn

„Tími Abramovich hjá Chelsea hefur verið jákvæður“

Atli Arason skrifar
Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Crystal Palace.
Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Crystal Palace. Getty Images

Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Crystal Palace, sagði á fréttamannafundi liðsins fyrir leikinn gegn Manchester City á morgun að fótboltaheimurinn ætti að muna eftir Roman Abramovich fyrir allt það góða sem hann hefur gert.

„Það er nóg að horfa á allt það sem Chelsea hefur unnið á síðustu 20 árum. Fjöldin allur af leikmönnum sem unglingastarf félagsins hefur framleitt og spilað í efstu deildum er annað. Þannig að auðvitað hefur tími Abramovich hjá Chelsea verið jákvæður og í raun jákvæður fyrir fótboltann í heild.“

Roman Abramovich keypti Chelsea árið 2003. Síðan þá hefur liðið unnið 19 stóra titla, þar á meðal enskir meistarar fimm sinnum og Evrópumeistarar tvisvar.

„Ég veit ekki hvað mun gerast, framtíðin ein getur sagt til um það. Maður getur samt ekki horft framhjá þeim árangri og áhrifum sem hann [Abramovich] hefur haft á ensku úrvalsdeildina og Chelsea. Það er ekkert sem hægt er að taka í burtu,“ sagði Patrick Vieira.

Einn af bestu leikmönnum Palace á tímabilinu er Englendingurinn Conor Gallagher, sem er einmitt í láni hjá Palace frá Chelsea. Vieira segist ekki hafa talað um ástandið hjá Chelsea og Abramovich við Gallagher.

„Við tölum ekki um það. Við erum með fulla einbeitingu á yfirstandandi leiktímabili og að klára tímabilið jafn vel og við höfum byrjað það. Við höfum bara talað saman um taktíska nálgun fyrir leikinn á mánudag. Eftir tímabilið munum við setjast niður með Conor og Chelsea og ræða framtíðina. Eins og staðan er akkúrat núna þá fer hann aftur til Chelsea að lánssamningi loknum,“ sagði Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Crystal Palace.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.