Fótbolti

Úkraínumenn vilja refsa gamla fyrirliðanum fyrir að kóa með Rússum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anatoliy Tymoshchuk í baráttu við Wayne Rooney í leik Englands og Úkraínu á EM 2012.
Anatoliy Tymoshchuk í baráttu við Wayne Rooney í leik Englands og Úkraínu á EM 2012. getty/Martin Rose

Anatoliy Tymoshchuk, fyrrverandi fyrirliði og leikjahæsti leikmaður í sögu úkraínska landsliðsins, gæti misst þjálfararéttindi sín vegna þagnar sinnar eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Hvorki hósti né stuna hefur heyrst frá Tymoshchuk eftir innrás Rússa og það sem meira er heldur hann áfram að starfa hjá rússneska meistaraliðinu Zenit þar sem hann er aðstoðarþjálfari.

Tymoshchuk hefur verið gagnrýndur fyrir að þegja þunnu hljóði eftir innrásina og úkraínska knattspyrnusambandið hefur núna fordæmt þögn hans. Í yfirlýsingu frá úkraínska knattspyrnusambandinu segir að ákvörðun hans að starfa áfram hjá Zenit skaði ímynd fótboltans í Úkraínu.

„Frá innrás Rússa í Úkraínu hefur Tymoshchuk, fyrrverandi fyrirliði úkraínska landsliðsins, ekki bara sent frá sér eina einustu yfirlýsingu varðandi hana heldur haldið áfram að starfa fyrir félag í Rússlandi,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Á meðan fyrrverandi félag hans, Bayern München, hefur sent frá sér yfirlýsingar og gripið til aðgerða til að styðja við Úkraínu heldur Tymoshchuk áfram að þegja og vinna fyrir félag innrásaraðilans.“

Úkraínska knattspyrnusambandið vill refsa Tymoshchuk með því að ógilda þjálfararéttindi hans, svipta hann öllum titlum sem hann vann í Úkraínu og þurrka hann út af listanum yfir leikmenn úkraínska landsliðsins.

Tymoshchuk var þrisvar sinnum Úkraínumeistari með Shakhtar Donetsk áður en hann gekk í raðir Zenit 2007. Þar varð hann Evrópudeildarmeistari og vann rússnesku úrvalsdeildina í tvígang. Tymoshchuk lék svo með Bayern á árunum 2009-13 og vann meðal annars Meistaradeild Evrópu með félaginu.

Tymoshchuk lék 144 landsleiki fyrir Úkraínu á árunum 2000-16 og var lengi fyrirliði landsliðsins. Hann lék með því á HM 2006 og EM 2012 og 2016.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.