Enski boltinn

Leikmaður Everton segir fyrirliða Rússa vera þögla tík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Artem Dzyuba ásamt Vladímír Pútín Rússlandsforseta.
Artem Dzyuba ásamt Vladímír Pútín Rússlandsforseta. getty/Mikhail Metzel

Vitaliy Mykolenko, úkraínskur leikmaður Everton, sendi rússneska landsliðinu tóninn í ansi berorðri færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann skammaði leikmenn þess fyrir að þegja þunnu hljóði eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Mykolenko beindi athygli sinni sérstaklega að Artem Dzyuba, fyrirliði rússneska landsliðsins, og sparaði ekki stóru orðin.

„Meðan þú ert þögul tík ásamt skíthælunum samherjum þínum er verið að myrða saklausa borgara í Úkraínu. Þú verður lokaður inni í dýflissu það sem eftir er ævinnar og það sem mikilvægara er ævi barnanna þinna. Og ég er ánægður með það,“ skrifaði Mykolenko.

Hinn 22 ára Mykolenko kom til Everton frá Dynamo Kiev í janúar. Hann hefur leikið þrjá leiki fyrir Everton.

Mykolenko og félagar í úkraínska landsliðinu eru komnir í umspil um sæti á HM 2022 þar sem þeir mæta Skotlandi síðar í þessum mánuði. Rússar komust einnig í umspilið en fá ekki að taka þátt í því vegna banns frá FIFA eftir innrásina í Úkraínu.

Everton mætir utandeildarliði Boreham Wood í sextán liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×