Fótbolti

Torgið sprungið sem Blikakonur röltu um á

Sindri Sverrisson skrifar
Blikakonur hópuðust saman á vellinum í Karkív eftir markalaust jafntefli við heimakonur í nóvember. Borgin varð fyrir eldflaugaárás Rússa í gær.
Blikakonur hópuðust saman á vellinum í Karkív eftir markalaust jafntefli við heimakonur í nóvember. Borgin varð fyrir eldflaugaárás Rússa í gær. Blikar.is/@danriversitv

Ekki eru nema fáeinir mánuðir síðan að leikmenn og fylgdarlið kvennaliðs Breiðabliks í fótbolta dvöldu í borginni Karkív í Úkraínu sem varð fyrir mannskæðri eldflaugaárás Rússa.

Blikakonur voru staddar í Karkív vegna leiks við heimakonur í Meistaradeild Evrópu í fótbolta 9. nóvember. Leiknum lauk með markalausu jafntefli og Kópavogsliðið sótti þannig sitt eina stig í riðlakeppninni til Úkraínu.

Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir, formaður meistaraflokksráðs kvenna hjá Breiðabliki, endurvarpaði myndskeiði frá Frelsistorginu í Karkív þar sem Dani Rivers, fréttamaður ITV, sýnir eyðilegginguna eftir eldflaugaárásina.

Innanríkisráðuneyti Úkraínu segir minnst tíu almenna borgara hafa fallið í eldflaugaárásinni í Karkív sem Vólódímir Selenskí, forseti Úkraínu, hefur lýst sem hreinu og kláru hryðjuverki. Minnst 35 manns munu hafa særst.

„Þetta er án nokkurs vafa stríðsglæpur. Gegn friðsælli borg. Friðsælum íbúðahverfum. Ekki nokkur hergögn í sjónmáli,“ sagði Selenskí í myndbandi á Facebook-síðu sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×