Erlent

Pútín virkjar hersveitir sem sjá um fælingarvopn Rússa

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. AP

Þær hersveitir sem halda utan um fælingarvopn Rússa hafa verið settar í viðbragðsstöðu af Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Hann segir þetta gert vegna „óvinsamlegra“ aðgerða vesturveldanna gegn Rússlandi.

Fælingarvopn er flokkur vopna sem kjarnorkuvopn, efnavopn og annars konar gereyðingarvopn falla undir. Rússneska TASS fréttastofan greinir frá skipuninni sem er sögð hafa komið fram á fundi Pútín með varnarmálaráðherranum Sergei Shoigu og Valery Gerasimov, starfsmannastjóra rússneska hersins.

„Hátt settir ráðamenn ríkja Atlantshafsbandalagsins leyfa sér að gefa út óvægnar yfirlýsingar um land okkar og þess vegna skipa ég varnarmálaráðherra og starfsmannastjóra að færa fælingarvopn rússneska hersins á sérstakt viðbúnaðarstig,“ hefur The Guardian eftir Pútín og vísar í frétt TASS.

Að sögn The Guardian er ekki á hreinu hvað áðurnefnt viðbúnaðarstig felur nákvæmlega í sér. Pútín hefur áður varað vesturveldin við því að hafa afskipti af átökunum í Úkraínu og sagt að slíkar aðgerðir myndu leiða til „afleiðinga sem þau hafi aldrei áður séð.“

Pavel Podvig, einn helsti sérfræðingur í málum er varða kjarnorkuvopn Rússa, skrifar á Twitter að þau ummæli hafi verið greinileg hótun um beitingu kjarnorkuvopna.

Fylgjast má með nýjustu vendingum í vaktinni á Vísi



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×