Innlent

Skilur pressuna á af­léttingar en hvetur fólk til að fara á­fram var­lega

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans. Vísir/Egill

Forstjóri Landspítalans telur að það megi spyrja sig hvort saman fari hljóð og mynd varðandi allsherjarafléttingar sóttvarnatakmarkana hér á landi. Landspítalinn er sem stendur á neyðarstigi, hæsta mögulega viðbúnaðarstigi, vegna mikils álags.

„En það er nú bara þannig að meiri hluti landsmanna er vel bólusettur og ómíkron-afbrigðið er vægara. En það er það nú kannski ekki fyrir alla og við erum núna með 51 sjúkling inniliggjandi með covid. Þetta virðist nú vera þannig að fyrir ákveðna einstaklinga þá ná þeir sér ekki í gegnum þetta, sérstaklega þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans.

Lengi vel frá upphafi faraldursins var meginmarkmið aðgerða að vernda spítalann og forða honum frá svo miklu álagi að hann sligaðist. Aðspurð hvort ráðamenn séu hættir að láta ástandið á spítalanum sig varða segist Guðlaug ekki telja svo vera.

„Nei ég myndi nú ekki orða það þannig. En engu að síður er það mjög skiljanlegt að það sé mikil pressa um afléttingar en verkefni spítalans er bara annað. Verkefni spítalans er að sinna þeim sjúklingum sem hingað leita og hingað þurfa að leggjast inn. Það er okkar verkefni.“

Hún er þá með einföld skilaboð til fólks í tilefni afléttinga:

„Ég myndi nú vilja skila því til fólks að fara varlega, nota grímur og fara varlega svona í afléttingunni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×