Fótbolti

Ajax borgar fjölskyldu fyrrum leikmanns meira en milljarð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Abdelhak Nouri var á sjúkrahúsi í 32 mánuði eftir að hafa fengið hjartaáfall í leik með Ajax Amsterdam.
Abdelhak Nouri var á sjúkrahúsi í 32 mánuði eftir að hafa fengið hjartaáfall í leik með Ajax Amsterdam. EPA-EFE/SANDER KONING

Abdelhak Nouri fékk hjartaáfall í leik með Ajax og hlaut í framhaldinu heilaskaða. Nú hefur hollenska félagið samþykkt að greiða fjölskyldu hans bætur.

Ajax Amsterdam mun greiða Nouri fjölskyldunni 7,85 milljónir evra í bætur sem eru 1,1 milljarður í íslenskum krónum.

Atvikið varð árið 2017 og gerðist í æfingarleik á móti Werder Bremen í Austurríki. Nouri, sem er 24 ára í dag, lék þarna sinn síðasta leik á ferlinum.

Það tókst að endurlífga Nouri á vellinum og hann var síðan fluttur á sjúkrahús. Hann hlaut engu að síður varanlegan heilaskaða.

Ajax hefur nú viðurkennt að læknishjálpin í bráðafasanum á vellinum hafi ekki verið fullnægjandi og félagið náði þessu samkomulagi við fjölskylduna um bætur.

„Við áttum okkur öll á því að þjáningunum fyrir Abdelhak og ástvini hans er ekki lokið. Þetta er áfram mjög sorgleg staða og þannig líður okkur hjá Ajax líka,“ sagði í framkvæmdastjórinn Edwin van der Sar í yfirlýsingu.

„Við kunnum mjög að meta hvernig fjölskyldan hugsar um Abdelhak dag sem nótt með fullt af ást og umhyggju. Þegar ég heimsæki hann þá tekur fjölskylda hans alltaf á móti mér með opnum örmum. Það er sömu sögu að segja um kollega mína hjá Ajax og við kunnum rosalega vel að meta það,“ sagði Van der Sar.

Ajax hélt áfram að borga laun Nouri eftir atvikið en samningi hans var endanlega sagt upp í mars 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×