Enski boltinn

Maguire segir að lygarnar haldi áfram

Sindri Sverrisson skrifar
Harry Maguire þvertekur fyrir óeiningu í liði Manchester United.
Harry Maguire þvertekur fyrir óeiningu í liði Manchester United. Getty/James Gill

Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, er búinn að fá sig fullsaddan af frásögnum ensku götublaðanna sem halda því fram að mikil óeining sé innan herbúða liðsins.

Eitt nýjasta dæmið um fréttaflutning af erjum í leikmannahópi United er frétt í Daily Mirror þar sem því er haldið fram að Maguire og Cristiano Ronaldo eigi í einhvers konar valdabaráttu sem valdi stjóranum Ralf Rangnick hugarangri, en fleiri dæmi mætti nefna.

Maguire hefur verið mikið gagnrýndur eftir slaka leiki fyrir United að undanförnu og Mirror hélt því fram að Rangnick væri tilbúinn að taka fyrirliðabandið af honum til að minnka pressuna á honum, en að Maguire væri mótfallinn því.

Mirror sagði einnig að Rangnick hefði beðið Ronaldo um að leiðbeina yngri leikmönnum liðsins og að það valdi ruglingi hjá leikmönnum, og að Maguire finnist sem grafið hafi verið undan honum.

Þetta segir fyrirliðinn vera hreinasta kjaftæði en hann skrifaði eftirfarandi á Twitter í dag, í aðdraganda leiksins við Leeds á sunnudaginn:

„Ég er búinn að sjá margar greinar um þetta félag sem eru ósannar og þetta er enn ein þeirra. Ég ætla ekki að fara að tjá mig um allt það sem er skrifað en ég varð að koma þessu á hreint. Við erum sameinaðir og einbeittir fyrir sunnudaginn. Njótið dagsins öllsömul.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×