Harry hetja Tottenham í sigri á Etihad

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Harry Kane skoraði sigurmarkið
Harry Kane skoraði sigurmarkið EPA-EFE/ANDREW YATES

Það var boðið upp á alvöru dramatík í dag þegar að meistarar Manchester City fengu Tottenham í heimsókn á Etihad völlinn í Lundúnum. Eftir mörg VAR augnablik og fimm mörk þá stóðu gestirnir uppi sem sigurvegarar, 2-3, í frábærum leik.

Fyrir leikinn voru Manchester City á toppnum með sex stiga forystu á Liverpool en Tottenham sat í átttunda sætinu og því ljóst að til mikils var að vinna fyrir bæði liðin. City vildi tryggja stöðu sína á toppnum og Tottenham vildi reyna að blanda sér í baráttuna um meistardeildarsæti.

Það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið. Harry Kane átti þá stórkostlega sendningu inn fyrir vörnina á Son sem dró Ederson, markvörð City, í sig og gaf boltann á nýja manninn, Dejan Kulusevski sem gerði engin mistök og skilaði boltanum í netið á 4. mínútu leiksins.

Það tók heimamenn í City rétt um hálftíma að jafna og var þar að verki Ilkay Gundogan á 33. mínútu. Hugo Lloris, markvörður Tottenham, missti þá klaufalega frá sér fyrirgjöf og Gundogan þakkaði fyrir sig. 1-1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Harry Kane kom svo gestunum yfir á 57. mínútu eftir smekklegan undirbúning frá Son, frábær samvinna þeirra allan leikinn gerði svo sannarlega gæfumuninn fyrir Tottenham.

Harry Kane hélt svo að hann hefði komið Tottenham í 1-3 skömmu seinna en markið var dæmt af eftir að dómararnir í VAR herberginu komust að þeirri niðurstöðu að Kulusevski hafi verið rangstæður í aðdraganda marksins. Hárréttur dómur.

Það var svo ekki fyrr en í uppbótartíma að Cristian Romero, varnarmaður Tottenham, fékk dæmda á sig hendi eftir mikla reikistefnu og VAR. Ryhad Mahrez skellti sér á punktinn og hreinlega bombaði boltanum upp í þaknetið. 2-2 og nú héldu flestir að markaskoruninni hafi verið lokið.

En Harry Kane, sem var þrálátlega orðaður við Manchester City, hafði ekki sagt sitt síðasta orð og skoraði sigurmarkið á 95. mínútu. Niðurstaðan 2-3 sigur Tottenham og Manchester City enn með sex stiga forystu á toppnum en Liverpool á leik til góða og liðin eiga enn eftir að mætast. Gríðarlega spenna á toppnum. Tottenham fór í 39 stig og eru nú einungis fjórum stigum á eftir Manchester United sem sitja í fjórða sætinu, en Tottenham á tvo leiki til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira