Innlent

Ó­sáttir í­búar upp­nefna HSS „Slátur­hús Suður­nesja“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar

Íbúar Suðurnesja eru margir orðnir langþreyttir á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) og kalla hana öllum illum nöfnum. Þeir segja lækna gefa sér lítinn tíma til skoðunar og að rangar greiningar á alvarlegum kvillum séu allt of algengar.

Í dag sækja um fjögur þúsund manns á þessu 28 þúsund manna svæði sér heilbrigðisþjónustu í Reykjavík. Það er tæplega sjötti hver íbúi.

„Flest allir sem að ég tala við og þekki fara allir frekar í bæinn eða eru komnir með lækna í bænum frekar en að fara hingað,“ segir Halldóra Ósk Ólafsdóttari bókari og íbúi í Sandgerði. 

Hún segist hafa lent í ýmsum erfiðleikum í samskiptum sínum við lækna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Nýlegasta dæmið er af syni hennar sem var í tvígang ranglega greindur af mismunandi læknum á HSS eftir að hafa fengið mikil útbrot á allan líkaman og bólgur í andlit. Hann versnaði síðan mjög og loksins þegar Halldóra fór með hann á Barnalæknaþjónustuna í Reykjavík var hann strax sendur upp á Barnaspítala Hringsins, greindur með ofsakláða og útbrot vegna veirusýkingar.

Ólafur Friðrik, sonur Halldóru, fékk mikil útbrot eftir veirusýkingu. 

Sagt að hún sé geðveik

Annað dæmi rekur hún eftir að hún hafði lent í bæði bílslysi og því að vera keyrð niður af mótorhjóli á innan við tveimur mánuðum. Þá undirgekkst hún sjúkraþjálfun en eftir hana hafi hún enn fundið fyrir miklum verkjum og leitaði sér aðstoðar hjá fjölda lækna stofnunarinnar.

Hún hafi krafist þess að fara í myndatöku og til sérfræðilæknis í gegn um heimilislækni þar.

„En hann ákveður að taka mynd og segir: „Já það er bara ekkert að þér. En er einhver saga um geðveiki í fjölskyldunni þinni?“ Og ég bara nei það er engin saga um geðveiki í fjölskyldunni minni... En hann segir: „Já mér þykir leitt að segja þér það en þú ert bara eitthvað geðveik.““

Halldóra segir uppnefnið á HSS altalað meðal íbúa svæðisins.vísir/sigurjón

Halldóra hafi síðan leitað sjálf til sérfræðings sem hafi litið á sömu myndir og greint hana strax með skemmt brjósk í hnjánum.

Nýtt Sláturhús

Lengi vel var það íþróttahöllin í Keflavík sem gekk undir dálítið óhuggulegu nafni. En nú eru margir íbúanna farnir að nota það nafn yfir hús HSS.

„Sláturhúsið, já. Sláturhúsið á Suðurnesjum. Það er bara umtalað,“ segir Halldóra og fleiri sem fréttastofa ræddi við á svæðinu könnuðust vel við þetta uppnefni. 

Vondri stjórnun um að kenna

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar fyrir Samfylkinguna, kannast við óánægju íbúa með heilbrigðisþjónustu svæðisins.

„Ég held að stjórnunin á þessum spítala sé ekki í samræmi við samfélagið. Og langt frá. Í öllum þjónustukönnunum sem við, sveitarfélagið Reykjanesbær, höfum gert á undanförnum árum kemur í ljós að mesta óánægjan á öllum sviðum er alltaf HSS,“ segir Friðjón.

Friðjón segir málið flókið og að sveitarfélög svæðisins hafi lengi talað fyrir umbótum við heilbrigðisráðuneytið sem hafi ekkert gert í málinu.vísir/sigurjón

Hann segir heilbrigðisráðherra verða að bregðast við stöðunni.

„Spítalinn er hundrað prósent á ábyrgð heilbrigðisráðherra,“ segir Friðjón.

„Okkur finnst ráðuneytið ekki taka þessu nógu alvarlega og við vitum ekki alveg hvert stjórnun spítalans er að fara, Í hvaða átt ætla þeir eiginlega að fara?“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.