Fótbolti

Alþjóðleg handtökuskipun gefin út á hendur Robinho

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Árið 2017 var Robinho dæmdur í níu ára fangelsi fyrir hópnauðgun. Brotið átti sér stað árið 2013 þegar hann var leikmaður AC Milan.
Árið 2017 var Robinho dæmdur í níu ára fangelsi fyrir hópnauðgun. Brotið átti sér stað árið 2013 þegar hann var leikmaður AC Milan. Dino Panato/Getty Images

Ítölsk yfirvöld hafa gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur fyrrverandi knattspyrnumannsins Robinho. Þessi fyrrum leikmaður Real Madrid, AC Milan og Manchester City var árið 2017 dæmdur í níu ára fangelsi fyrir hópnauðgun.

Brotið átti sér stað árið 2013 á skemmtistað í Mílanó þegar Robinho var leikmaður AC Milan, en hann býr nú í Brasilíu þar sem hann er fæddur og uppalinn. Eins og áður segir var Robinho dæmdur fyrir brotið árið 2017, en fyr um það bil mánuði var áfrýjun hans vísað frá af hæstarétti Ítalíu og dómurinn stendur því enn.

Saksóknarar í Mílanó gáfu út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Robinho, en þeir hafa einnig óskað eftir því við ítalska dómsmálaráðuneytið að brasilísk yfirvöld verði krafin um að Robinho verði framseldur til Ítalíu svo hann geti hafið afplánun þar í landi.

Framsal er hins vegar ekki leyfilegt samkvæmt brasilísku stjórnarskránni og því verður að teljast ólíklegt að Ítalir fái sínu framgengt að svo stöddu.

Alþjóðlega handtökuskipunin gerir það þó að verkum að Robinho gæti verið framseldur til Ítalíu ef hann ákveður að yfirgefa Brasilíu. Geri hann það gæti hann verið handtekinn í öðru landi og ef lög og reglur þar leyfa framsal gæti hann verið sendur til Ítalíu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.