Enski boltinn

Gerðu grín að höndum Pickfords og slagsmál brutust út

Sindri Sverrisson skrifar
Jordan Pickford er aðalmarkvörður Everton og enska landsliðsins.
Jordan Pickford er aðalmarkvörður Everton og enska landsliðsins. Getty/James Williamson

Jordan Pickford, landsliðsmarkvörður Englands í fótbolta, varð fyrir aðkasti gesta á bar í bænum East Boldon, nærri Sunderland, á sunnudaginn.

Pickford mætti á staðinn með félögum sínum og skömmu síðar höfðu slagsmál brotist út, samkvæmt frétt enska götublaðsins The Sun sem vísar í sjónarvott.

Ekkert bendir til þess að Pickford hafi tekið þátt í slagsmálunum. Samkvæmt sjónarvotti höfðu hann og vinir hans ekki einu sinni náð að kaupa sér drykk áður en gestir á staðnum voru byrjaðir að vera með stæla. 

Þeir munu hafa gert grín að Pickford og þá sérstaklega því að handleggir hans væru svo stuttir, eins og Everton-markvörðurinn hefur oft þurft að þola.

Stuðningsmaður Newcastle með T-Rex risaeðlu, til að gera grín að Jordan Pickford á leik gegn Everton í síðustu viku.Getty/Stu Forster

Einn mun hafa nefbrotnað í slagsmálunum og sími annars var mölbrotinn en sá mun hafa verið að taka lætin upp á myndband.

Lögreglan er með málið til rannsóknar og hefur óskað eftir vitnum en Pickford og félagar höfðu ekið í burtu þegar hún mætti á vettvang.

Hinn 27 ára gamli Pickford lék með Sunderland áður en hann var seldur til Everton árið 2017. Stuðningsmaður Newcastle, erkifjenda Sunderland, mætti með T-Rex risaeðlu á leik gegn Everton í síðustu viku til að hrekkja Pickford með því að gefa í skyn að líkt og T-Rex væri hann með stutta handleggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×