Enski boltinn

Rangnick: Líka Solskjær að kenna ef við náum ekki Meistaradeildarsæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er ekki að ganga alveg nógu vel hjá Manchester United undir stjórn Ralf Rangnick.
Það er ekki að ganga alveg nógu vel hjá Manchester United undir stjórn Ralf Rangnick. AP/Jon Super

Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, ætlar ekki að taka einn ábyrgð á því ef lið hans tekst ekki að tryggja sér sæti meðal fjögurra efstu í ensku úrvalsdeildinni í vor.

Fjögur efstu sætin skila sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili og skipta félögin gríðarlega miklu máli. United liðið tapaði enn einu sinni stigum um helgina og það verður erfitt verkefni hjá liðinu að komast í Meistaradeildarsæti.

Ralf Rangnick tók við liði Manchester United af Norðmanninum Ole Gunnar Solskjær í lok nóvember og á að stýra því út þetta tímabil. Hann viðurkennir að hann hafi áhyggjur af því að United nái ekki einu af fjórum efstu sætunum.

„Það hefur verið áhyggjuefni að ná ekki Meistaradeildarsæti síðan Ole fór,“ sagði Ralf Rangnick við ESPN. Hann er á því að það sé líka Solskjær að kenna ef liðið nái ekki Meistaradeildarsæti.

„Það var ein af ástæðunum að hann varð að fara og úrslit eins og í þessum leik á móti Southampton gera hlutina ekki auðveldari,“ sagði Rangnick. Solskjær var rekinn eftir fimm tapleiki í sjö deildarleikjum.

United vann þrjá af fyrstu fjórum deildarleikjum sínum undir stjórn Rangnick en hefur aðeins unnið tvo af síðustu sex. Liðið hefur samt aðeins tapað einum deildarleik síðan hann tók við.

United menn komust 1-0 yfir í þriðja leiknum í röð en misstu hann niður í jafntefli eins og hina tvo.

Í þeim fyrsta af þessum þremur tapaði United fyrir Middlesbrough í vítakeppni í enska bikarnum en í síðustu tveimur tapaði liðið fjórum stigum í leikjum á móti Burnley og Southampton.

„Við verðum að horfast í auga við þessa stöðu. Svona er staðreynd málsins og svona úrslit gera okkur ekki auðveldara fyrir að ná þessu fjórða sæti,“ sagði Rangnick. Liðið er að missa niður forystu og hann hefur áhyggjur af forminu.

„Ef ég segi alveg eins og er þá er ég ekki viss um að liðið sé í nógu góðu formi til að spila af því að ég kom hingað á miðju tímabili. Ég fékk því ekkert undirbúningstímabil og í raun voru þetta bara tvær vikur sem við gátum æft á eðlilegan hátt,“ sagði Rangnick.

Solskjær er ekki lengur í starfi á Old Trafford en það er ljóst að hann verður áfram blóraböggull fari allt á versta veg í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×