Fótbolti

FH-ingar hófu Lengjubikarinn á sigri | Tíu leikmenn KV héldu út

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
FH-ingar unnu góðan 2-0 sigur gegn Selfyssingum í Lengjubikarnum í dag.
FH-ingar unnu góðan 2-0 sigur gegn Selfyssingum í Lengjubikarnum í dag. Vísir/Hulda Margrét

Fimm leikir voru á dagskrá í Lengjubikar karla í fótbolta í dag. FH-ingar unnu góðan 2-0 sigur gegn Selfyssingum í riðli fjögur og KV vann góðan 1-0 útisigur á Fjölni í riðli tvö, þrátt fyrir að spila allan seinni hálfleikinn manni færri.

Matthías Vilhjálmsson kom FH-ingum yfir með marki strax á 14. mínútu leiksins, en það var Guðmundur Kristjánsson sem tryggði liðinu 2-0 sigur með marki eftir tæplega klukkutíma leik.

Þá skoraði Njörður Þórhallsson eina mark leiksins er KV vann góðan 1-0 útisigur á Fjölni Styrmir Máni Kárason fékk að líta beint rautt spjald í liði KV stuttu fyrir hálfleik, en þrátt fyrir liðsmuninn tókst Fjölnismönnum ekki að jafna metin í síðari hálfleik.

Fylkir og Fram áttust einnig við í dag í riðli fjögur, en í Árbænum urðu lokatölur 1-1. Tiago kom gestunum í Fram yfir með marki á 12. mínútu áður en Daði Ólafsson jafnaði metin tuttugu mínútum síðar.

Í riðli eitt vann ÍBV 2-1 útisigur gegn HK og ÍA vann 3-1 sigur á heimavelli gegn Þórsurum frá Akureyri í riðli tvö.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.