Fótbolti

Dómarinn bauð Mo Salah flautuna sína og spjöldin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah var niðurbrotinn maður í leikslok enda munaði svo rosalega litlu að hann ynni titil með Egyptalandi.
Mohamed Salah var niðurbrotinn maður í leikslok enda munaði svo rosalega litlu að hann ynni titil með Egyptalandi. AP/Sunday Alamba

Það var ekki kvöld Mohamed Salah í gær þegar hann tapaði úrslitaleik Afríkukeppninnar. Liverpool maðurinn hefur átt frábært tímabil en upplifði ekki drauminn sinn að vinna titil með Egyptalandi.

Salah var niðurbrotinn í leikslok en Egyptaland tapaði titlinum í vítakeppni þar sem úrslitin voru ráðin áður en Salah fékk að taka sitt víti.

Á sama tíma var það liðsfélagi hans hjá Liverpool, Sadio Mané, sem tryggði Senegal titilinn með því að skora úr lokaspyrnu Senegala.

Suður-Afríkumaðurinn Victor Gomes dæmdi leikinn og varð sá fyrsti hjá sinni þjóð til að dæma úrslitaleik í Afríkukeppni.

Salah var greinilega orðinn talsvert pirraður í leiknum og var mikið að kvarta í Gomes. Þegar Gomes var búinn að fá nóg þá lyfti hann ekki gula spjaldinu heldur rétti Salah flautu sína og spjöld. Það má sjá þetta hér fyrir ofan.

Gomes er þekktur fyrir að koma hreint fram og þykir einn allra besti dómari Afríku.

Salah tók skilaboðum dómarans og minnkaði vælið í kjölfarið en tókst þó ekki að búa til mark fyrir liðs sitt í leiknum en leikurinn endaði með markalausu jafntefli.

Salah hefur skorað 23 mörk í 26 leikjum með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni á tímabilinu en hann náði bara að skora tvö mörk í sjö leikjum í Afríkukeppninni þarf af hvorki í undanúrslitunum eða úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×