Fótbolti

„Ég hef brennandi áhuga og ástríðu fyrir því að taka þátt í þessari uppbyggingu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir býður sig fram til áframhaldandi setu sem formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir býður sig fram til áframhaldandi setu sem formaður KSÍ. Vísir/Hulda Margrét

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður knattspyrnusambands Íslands, ætlar að bjóða sig fram til áframhaldandi setu sem formaður KSÍ.

Vanda hefur gegnt starfi formanns KSÍ frá því í byrjun október á síðasta ári eftir að hafa verið kosin til embættis á aukaþingi sambandsins. Hún er fyrsta konan til að gegna stöðu formannst aðildarsambands evrópska knattspyrnusambandsins UEFA, en hún er sú eina sem hefur tilkynnt um framboð sitt til formanns KSÍ.

„Ég er mjög stolt af þeim árangri sem við höfum náð á erfiðum tímum, en núna er einhvernveginn bjart framundan og ég hef brennandi áhuga og ástríðu fyrir því að taka þátt í þessari uppbyggingu,“ sagði Vanda í samtali við Stöð 2 í gær.

Umræðan um nýjan þjóðarleikvang hefur verið hávær síðustu ár og þá sérstaklega á undanförnum vikum. Vanda segist bíða spennt eftir því að fyrsta skóflustungan verði tekin, hvenær svo sem það verður. Hún segir einnig mikilvægt að sérsamböndin vinni saman í þessum málum.

„Mér finnst mjög mikilvægt - og ég hef sagt það við þá líka - að við séum ekki að stinga hvert annað í bakið eða að ég sé einhvern veginn að stíga upp á aðra til að koma mér ofar. Við erum saman í þessu íþróttahreyfingin. Saman erum við sterkari og við erum öll með sama markmið. Það er annars vegar árangur fyrir Íslands hönd og hins vegar risastóra markmiðið sem eru börnin okkar.“

„Við erum uppeldishreyfingar þannig að ef við vinnum saman þá verður það til góðs fyrir alla,“ sagði Vanda að lokum.

Kosið verður til formanns KSÍ á ársþingi sambandsins þann 26. febrúar næstkomandi, en viðtalið við Vöndu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Vanda býður sig fram til áframhaldandi formennsku



Fleiri fréttir

Sjá meira


×