Erlent

Veita full­vissu um að skýrslan verði birt í heild sinni

Gunnar Reynir Valþórsson og Atli Ísleifsson skrifa
Boris Johnson fyrir utan Downingstræti 10 í gær á leið sinni í breska þinghúsið.
Boris Johnson fyrir utan Downingstræti 10 í gær á leið sinni í breska þinghúsið. AP/Alberto Pezzali

Talsmenn Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hafa nú fullvissað þingmenn Íhaldsflokksins um að skýrsla Sue Gray, sem rannsakaði partýstand á ríkisstjórninni og starfsmönnum Downingstrætis 10 á tímum kórónuveirunnar, verði birt í heild sinni að lokinni lögreglurannsókn.

Gray-skýrslan var birt í gær en aðeins að hluta því lögregla rannsakar nú málið og hafði farið fram á að sumt í skýrslunni yrði ekki birt á meðan á lögreglurannsókn stæði.

Boris baðst enn og aftur afsökunar á veisluhöldum ríkisstjórnar og starfsmanna sinna í gær og lofaði bót og betrun í þeim málum.

Hann vildi þó ekki ganga svo langt að lofa því að skýrslan yrði öll birt á endanum en nú hafa fregnir borist um það úr Downingstræti 10 að skýrslan verði á endanum gerð opinber.

Í skýrslunni segir Gray að erfitt hafi verið að réttlæta samkvæmin og að sum þeirra séu til marks um alvarleg brot á þeim viðmiðum sem búist sé við að opinberir starfsmenn eigi að halda á lofti.

Samkvæmin sem um ræðir voru haldin á um tuttugu mánaða tímabili árin 2020 til 2021, þegar harðar sóttvarnareglur og samkomutakmarkanir voru í gildi á Bretlandi. Gray var með sextán samkvæmi til skoðunar og rannsakar lögregla nú tólf þeirra.


Tengdar fréttir

Segir „erfitt að réttlæta“ samkvæmin og að leiðtogar hafi brugðist

Sue Gray, sem hefur haldið utan um rannsókn á tíðum samkvæmum að Downingstræti tíu, þar sem heimili og skrifstofa Borisar Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er til húsa, segir erfitt að réttlæta samkvæmin. Það sé sérstaklega erfitt í ljósi þeirra sóttvarnarreglna og samkomutakmarkana sem voru þá í gildi.

Bráðabirgðaútgáfa Gray-skýrslunnar komin á borð Johnson

Forsætisráðherra hefur fengið afhent afrit af bráðabirgðaniðurstöðum Sue Gray um partýhald í Downing-stræti þegar sóttvarnaaðgerðir stóðu yfir á Bretlandseyjum. Ráðherrann mun flytja yfirlýsingu um skýrsluna í þinginu seinna í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×