Enski boltinn

Tengdafaðir Van de Beek reynir að koma honum til Crystal Palace

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Donny van de Beek gæti verið á leið til Crystal Palace á láni eftir að tengdafaðir hans hringdi í stjóra liðsins.
Donny van de Beek gæti verið á leið til Crystal Palace á láni eftir að tengdafaðir hans hringdi í stjóra liðsins. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Dennis Bergkamp, fyrrverandi leikmaður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, hefur haft samband við sinn fyrrum liðsfélaga, Patrick Vieira knattspyrnustjóra Crystal Palace, til að reyna að sannfæra hann um að fjárfesta í tengdasyni sínum.

Tengdasonur Dennis Bergkamp er Hollendingurinn Donny van de Beek sem er á mála hjá Manchester United.

Van de Beek gekk í raðir United í lok ágúst árið 2020 en hefur fengið fá tækifæri með liðinu síðan. Hann hefur aðeins leikið 27 deildarleiki fyrir félagið.

Forráðamenn Manchester United eru tilbúnir að leyfa miðjumanninum að fara á láni áður en félagsskiptaglugginn lokar á mánudaginn, að því gefnu að borgað verði fyrir lánssamninginn og að félagið sem hann fer til borgi launin hans á meðan.

Patrick Vieira vonast til þess að geta sannfært Van de Beek um að ganga í raðir Crystal Palace þar sem hann geti lofað honum meiri spiltíma en hann fær hjá United. Þá er stjórinn einnig að leita að reynslumeiri leikmönnum til að klára seinni hluta tímabilsins.

Ásamt Crystal Palace er spænska félagið Valencia sagt hafa áhuga á miðjumanninum, en efast er um hvort liðið geti borgað laun leikmannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×