Enski boltinn

Lampard gæti tekið við Everton

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Frank Lampard gæti tekið við Everton.
Frank Lampard gæti tekið við Everton. Getty/Darren Walsh

Frank Lampard, fyrrum leikmaður og knattspyrnustjóri Chelsea, er einn af þeim sem þykir ansi líklegur til að taka við stjórastöðu Everton eftir að Rafael Benítez var látinn fara frá félaginu á dögunum.

Lampard er eitt þriggja nafna sem eru á lista Farhad Moshiri, eiganda félagsins, yfir mögulega arftaka Benítez. Ásamt Lampard eru þeir Vitor Pereira og núverandi bráðabirgðastjóri liðsins, Duncan Ferguson á listanum.

Svo virtist sem Pereira myndi taka við liðinu, en eftir að stuðningsmenn liðsins brugðust hinir verstu við þeim fregnum ákvað Moshiri að bakka með þá ákvörðun. Pereira þykir þó enn líklegur til að taka við starfinu.

Moshiri ætlar sér að funda með mönnunum þrem á morgun áður en hann tekur ákvörðun um hvern hann vill ráða í starfið, en eins og áður segir er Lapard einn af þeim sem þykir líklegur til að taka við starfinu.

Lampard lék með Chelsea stærstan hluta ferilsins sem leikmaður og tók svo við sem knattspyrnustjóri félagsins sumarið 2019. Hann var svo látinn fara í janúar á seinasta ári, en undir hans stjórn lenti liðið í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og komst í úrslitaleik FA-bikarsins á hans einu heilu leiktíð sem knattspyrnustjóri.

Hver svo sem það verður sem tekur við stjórnartaumunum hjá Everton hefur verk að vinna. Liðið hefur dregis niður töfluna á seinustu vikum og mánuðum og situr nú í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 19 stig eftir 20 leiki, aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×