Innlent

Um helmingur íbúa með kórónuveiruna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi.
Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Um helmingur íbúa á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi hefur greinst með kórónuveiruna. Framkvæmdastjóri Vigdísarholts sem rekur hjúkrunarheimilið segir íbúana lítið veika en veikindi starfsfólks hafi þó töluverð áhrif á heimilið.

Í byrjun vikunnar greindist fyrsti íbúi Sunnuhlíðar með kórónuveiruna. Þetta er í fyrsta sinn á þeim nærri tveimur árum frá því veiran greindist fyrst hér á landi sem íbúi greinist með veiruna. Á heimilinu búa sextíu og sex íbúar og breiddi veiran hratt úr sér og nú hafa rúmlega þrjátíu íbúar greinst með veiruna.

„Staðan er nokkuð þung en allt viðráðanlegt þar sem það er lítið um veikindi, og nánast eiginlega bara ekkert um veikindi, meðal heimilismanna,“ segir Kristján Sigurðsson framkvæmdastjóri Vigdísarholts sem rekur Sunnuhlíð.

Hann segir mönnun nú meira vandamál en veikindi íbúa. Nokkur fjöldi starfsmanna sé nú í einangrun eða sóttkví og því frá vinnu.

„Það eru nokkur afföll út af veirunni og við höfum þurft að loka stoðdeildum og flutt starfsfólk á milli deilda og það er eiginlega því að þakka hvað við erum með frábært starfsfólk að þetta er allt að ganga upp hjá okkur.“

Hann segir þá íbúa sem veikst hafa vera með flensueinkenni.

„Eins og er er þetta alveg viðráðanlegt en svo náttúrulega getur þetta aukist og þá náttúrulega versnar ástandið.“

Í byrjun árs greindist veiran á hjúkrunarheimilinu Seltjörn, sem einnig er rekið af Vígdísarholti, en þar smituðust níu af tíu íbúum af veirunni. Kristján segir alla hafa orðið lítið veika þar.

Sunnuhlíð hefur verið lokað fyrir heimsóknum. Þá hafa íbúar verið færðir á milli staða innan heimilisins til að einangra íbúa með veiruna en nokkur tvíbýli eru í Sunnuhlíð.


Tengdar fréttir

27 í­búar greinst í hóp­sýkingu á Grund

27 heimilismenn á hjúkrunarheimilinu Grund hafa greinst með Covid-19 síðustu daga. Fjórir starfsmenn hafa sömuleiðis greinst í tengslum við hópsýkinguna. Um er að ræða tæpan helming íbúa á 60 manna deild og heldur skimun áfram næstu daga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×