Innlent

„Staðreyndin er sú að við stöndum núna í skólum með fáar eða litlar varnir“

Fanndís Birna Logadóttir og Óttar Kolbeinsson Proppé skrifa
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

Nokkur þúsund Íslendingar losna úr sóttkví á miðnætti þegar miklu vægari reglur um sóttkví taka gildi. Um helmingur þeirra sem nú eru í sóttkví eru börn en formaður Félags grunnskólakennara óttast að mörg börn muni veikjast á næstu dögum. Fáar sem engar varnir séu nú í skólum landsins. 

Breyttar reglur um sóttkví taka gildi á miðnætti í kvöld en með þeim breytingunum þurfa þeir sem verða útsettir fyrir smitum utan heimilis ekki að sæta sóttkví heldur fara í smitgát. Börn og unglingar verða algjörlega undanþegin reglum um smitgát.

Börn eru um helmingur þeirra sem nú eru í sóttkví og má því gera ráð fyrir að mörg þúsund börn geti mætt í skólann strax í fyrramálið.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir kennara lítast vel á að börn geti aftur mætt til skóla.

„Það að stór hópur barna sé í sóttkví er auðvitað ekki ástand sem við getum búið við, en við búum auðvitað við þessa veiru og hún er enn þá grasserandi í samfélaginu og hún er hvað mest í hópi barna,“ segir Þorgerður.

Hún segir kennara hafa verið hugsi yfir framkvæmd sóttvarnaráðstafana undanfarið, ekki síst eftir að skólareglugerðin var kynnt til leiks fyrr í mánuðinum. Kennarar hafi jafnvel grínast með það að stofna krá þar sem þeir væru ódrepanlegir og sóttvarnir giltu ekki um þá.

„Núna hafa kannski runnið einmitt tvær grímur á kennara því að hér er bara verið að tala um það að sóttvarnir sem hafa áður verið notaðar til að reyna að tempra smit, verði ekkert lengur til staðar í skólum,“ segir Þorgerður.

Kennarar komust líkt og aðrir að breytingunum þegar heilbrigðisráðherra tilkynnti um þær í dag.

„Við erum búin að vera að greiða úr því hvað þetta þýðir og hvaða viðbrögð við getum sýnt. Við erum auðvitað búin að treysta vísindamönnum fyrir heilsu og velferð þessarar þjóðar síðustu 22 mánuðina og við gerum það áfram,“ segir Þorgerður.

„En staðreyndin er auðvitað bara sú að við stöndum núna í skólum með fáar eða litlar varnir vegna þess að nálægðin við börn og nemendur er auðvitað gríðarlega mikil. Það að þau komi öll núna úr sóttkví, það mun þýða að þau verða mörg veik á næstu dögum,“ segir Þorgerður.

Sjálfur sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra að það væri viðbúið að smituðum myndi fjölga í skólum hjá börnum á leik- og grunnskólaaldri og barnafjölskyldum.

Veruleg aflétting á sóttvarnaráðstöfunum

Þessar breyttu sóttkvíarreglur eru svo að segja fyrsti liður í viðamikilli afléttingaráætlun stjórnvalda sem á að kynna næsta föstudag.

„Þetta mun létta verulega á smitrakningu í skólum og þetta mun létta á sýnatökum og þá mun losna um starfsfólk sem hefur verið að sinna sýnatökum og getur sinnt öðrum störfum. Þannig að þetta er veruleg aflétting á sóttvarnaráðstöfunum,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Reglurnar taka gildi á miðnætti og þá losna þeir sem eru þegar í sóttkví og tilheyra þessum hópi. Nú eru um 13.300 í sóttkví á landinu en nákvæmar tölur um hversu margir losna úr sóttkví á miðnætti liggja ekki fyrir.

Skiptar skoðanir hafa verið við ríkisstjórnarborðið um réttmæti þeirra 10 manna samkomutakmarkana sem nú eru í gildi og efaðist formaður Sjálfstæðisflokksins meðal annars um lögmæti þeirra í gær.

Forsætisráðherra telur heilbrigðisráðherra þó á réttri leið með að byrja á afléttingum á sóttkvíarfyrirkomulaginu og ráðast síðan í almennari afléttingar í næstu viku.

„Heilbrigðisráðherra vill nálgast þetta mál út frá bæði bestu mögulegu gögnum og með eins faglegum og heildstæðum hætti og hægt er. Og þetta er sú breyting sem hann leggur til í samráði við sóttvarnalækni að þessu sinni,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Það sé stórt skref að afnema sóttkví fyrir svo fjölmennan hóp.„Þetta er auðvitað gríðarleg eðlisbreyting, vil ég segja, á því hvernig við erum að takast á við þetta,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir

Engar breytingar á einangrun þrátt fyrir nýjar reglur um sóttkví

Breyttar reglur um sóttkví voru tilkynntar í dag en engu að síður er sóttvarnalæknir harður á því að breytingar verði ekki gerðar á lengd og framkvæmd einangrunar. Hann segir mikilvægt að aflétta í varfærnum skrefum en viðbúið er að fleiri muni greinast í skólum vegna þeirra breytinga sem kyntnar voru í dag. 

1.558 greindust innan­lands í gær og hafa aldrei verið fleiri

1.558 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og 55 á landamærum. Aldrei hafa svo margir greinst innanlands á einum sólarhring hér á landi frá upphafi faraldursins, en fyrri metdagur var 30. desember síðastliðinn þar sem 1.553 greindust innanlands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×