Innlent

Veðurofsinn gengur yfir í kvöld og nótt

Heimir Már Pétursson skrifar
Vindhraðinn fer allt upp í 28 metra á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu í dag. Myndin er tekin við Gróttuvita í morgun.
Vindhraðinn fer allt upp í 28 metra á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu í dag. Myndin er tekin við Gróttuvita í morgun. Vísir/Vilhelm

Millilandaflug fór úr skorðum í morgun vegna vonskuveðurs. Sjö flugferðum var aflýst og sex flugferðum seinkað fram á kvöld. Einnig hefur orðið röskun á innanlandsflugi en spáð er vondu veðri víðast hvar í dag.

Flugi Icelandair til Parísar, Amsterdam, Lundúna, Kaupmannahafnar og Dyflinnar var aflýst í morgun og Play felldi niður flug til Tenerife og Alicante vegna veðursins. Icelandair hefur einnig aflýst flugi til Seattle í Bandaríkjunum síðdegis. Þá hefur sex flugferðum Wizz Air, Easy Jet og Lufthansa sem áttu að fara frá Keflavíkurflugvelli fyrir hádegi og fram til klukkan þrjú verið frestað fram á kvöld.

Allt innanlandsflug hefur einnig legið niðri í morgun en flugfélagið Ernir er þó enn með áætlun um að fljúga til Húsavíkur klukkan fimm mínútur í fjögur en veðrið er skárst á Norðausturlandi.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia segir ekki hægt að nota landganga fyrir flugvélar í þeim veðurofsa sem verið hafi á Keflavíkurflugvelli í dag.Vísir/Vilhelm

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Ísavía segir vindhraða hafa áhrif á þjónustu við flugvélar á Keflavíkurflugvelli.

„Landgöngubrýrnar hjá okkur voru teknar úr notkun á sjöunda tímanum í morgun. Það er erfitt að nota stigabíla sem flugþjónustufyrirtækin reka og taka farangur frá borði. Öryggisviðmiðin varðandi landganga eru fimmtíu hnútar sem eru tæpir 26 metrar á sekúndu. Vindhraðinn núna eftir hádegi samkvæmt þeim spám sem við höfum gæti farið upp í 73 hnúta eða 37,5 metra á sekúndu í hviðunum,“ segir Guðjón.

Útlitið er því áfram tvísýnt á Keflavíkurflugvelli. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir mjög hvasst hafa verið sunnan og suðvestanlands í morgun.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir hvessa síðdegis á Vestur-, Suður- og Austurlandi en veðrið gangi niður á landinu í kvöld og nótt.Vísir

„Þetta er vestanátt, ekki sú algengasta hér. Strengur suður af lægðarmiðju. Það eru líkur á að veðrið nái hámarki til dæmis hér á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum nú eftir hádegi,“ segir Einar. Vindstrengurinn gangi síðan austur- og norðureftir landinu.

„Það er nú útlit fyrir að bæði á Hellisheiði og í Þrengslum verði erfið færð. Aðallega vegan blindu nú í eftirmiðdaginn og eftir hádegi. Það sama má segja austur með ströndinni. Feykihvasst til dæmis við Reynisfjall í Mýrdal og svo áfram austar í kvöld,“ segir Einar.

Veður muni versna á fjallvegum á Vesturlandi í dag en Vestfirðir sleppi nokkuð vel. Veðrið muni hins vegar ganga yfir á þessum sólarhring.

„Það verður komið hæglætisveður strax í nótt á landinu og lítur vel út á morgun. Það eru fleiri lægðir á leiðinni. Ein minniháttar aðfararnótt fimmtudags. Það muggar frá henni víða um landið. Sérstaklega vestantil um nóttina og morguninn. Síðan er útlit fyrir að það geri dálítið ákveðna leysingu hér á föstudag,“ segir Einar Sveinbjörnsson.


Tengdar fréttir

Í basli á leið yfir Hellisheiði

Appelsínugul viðvörun er á suðvesturhorni landsins en afar hvasst er á þessum hluta landsins. Öllum flugferðum frá Keflavíkurflugvelli í morgun var aflýst og bílar eiga sumir hverjir í basli með að komast yfir Hellisheiðina.

Ferða­löngum snúið við vegna vonsku­veðurs

Öllu flugi Icelandair, sem fara átti frá Keflavíkurflugvelli fyrir hádegi í dag, hefur verið aflýst vegna vonskuveðurs. Flugi Play til Tenerife og Alicante hefur sömuleiðis verið frestað um sólarhring.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×