Innlent

Ferða­löngum snúið við vegna vonsku­veðurs

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Atli Ísleifsson skrifa
Farþegar þurftu að ganga út úr flugstöðinni í morgun í stað þess að fljúga í betra veður.
Farþegar þurftu að ganga út úr flugstöðinni í morgun í stað þess að fljúga í betra veður. Vísir/Kolbeinn Tumi

Öllu flugi Icelandair, sem fara átti frá Keflavíkurflugvelli fyrir hádegi í dag, hefur verið aflýst vegna vonskuveðurs. Flugi Play til Tenerife og Alicante hefur sömuleiðis verið frestað um sólarhring.

Nokkuð hvassviðri er á Keflavíkurflugvelli þessa stundina, eða um 19 m/s. Ferðalanga á leið í sól biðu því eintóm vonbrigði þegar þeir komu til Keflavíkur í morgun þar sem öllu flugi Icelandair, sem fara átti fyrir hádegi, hefur verið aflýst.

Öllu flugi Icelandair sem fara átti fyrir hádegi hefur verið aflýst.Vísir/Kolbeinn Tumi

Það má sjá á vefsíðu Isavia en þar að auki hefur flugi Play, sem fara átti fyrir hádegi, verið frestað samkvæmt heimildamanni fréttastofu sem staddur er á vellinum. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Isavia hefur flugi Play til Alicante verið aflýst en áætluð brottför til Tenerife er klukkan 9:00. 

Þá hefur flugi Lufthansa til Frankfurt klukkan 14:55 verið seinkað um hálfan sólarhring. Þá hefur öllum flugum sem fara átti fyrir klukkan 17 í dag verið frestað þar til síðar í dag. 

Kröpp lægð er nú skammt vestur af landinu og hún fer austnorðaustur yfir landið í dag. Það er því líklegt að  lægðin sé farin að hafa áhrif á Suðurnesin, en á sunnanverðum Suðurnesjum verður appelsínugul viðvörun í gildi frá miðjum degi í dag. 

Hefur áhrif á um þúsund farþega Icelandair

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við Vísi að alls hafi þurft að aflýsa fimm brottförum frá Keflavík og svo fyrirhuguðum ferðum sömu véla frá Evrópu til Íslands.

„Þetta er gert vegna veðurs. Síðar í dag munum við taka stöðuna varðandi þau flug sem eru á dagskrá seinni partinn,“ segir Ásdús, en Icelandair þurfti að aflýsa ferðum til Parísar, London, Amsterdam, Kaupmannahafnar og Dublin. Vélarnar áttu upphaflega að fara í loftið milli klukkan 7:30 og 7:45 í morgun.

Flugferðum Wizz Air og Easy Jet hefur verið frestað fram á kvöld.

Hún segir að alls hafi þetta áhrif á um þúsund farþega Icelandair, en 420 farþegar áttu bókað flug frá Keflavík í morgun og svo áttu tæplega sex hundruð manns bókað flug frá Evrópu til Íslands síðar í dag. Hún segir að nú sé verið að útvega þeim gistingu sem þurfa.

Ráða ekki við veðrið

Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, segir að félagið hafi þurft að aflýsa tveimur flugferðum sem áttu að fara í morgun til Alicante og Tenerife vegna veðurs. Farþegar hafi verið beðnir um að mæta fyrr í morgun því til stóð að flýta brottför vegna veðurs en það hafi svo því miður ekki verið hægt og fluginu frestað um sólarhring.

„Veðrið er eitthvað sem við ráðum alls ekki við og farþegar sýna því sem betur fer skilning þó þeir þurfi að fresta því um einn dag að komast í sólina. Þeir fá upplýsingar um næstu skref innan skamms.“

Fréttin hefur verið uppfærð


Tengdar fréttir

Kröpp lægð nálgast landið og appel­sínu­gular við­varanir

Kröpp lægð er nú skammt vestur af landinu og hún fer austnorðaustur yfir land í dag. Veðurstofan gerir ráð fyrir að það verði því vaxandi suðvestanátt fyrri part dags og rigning eða skúrir, en þurrt að kalla norðaustanlands. Hiti verður á bilinu núll til sex stig.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.