Innlent

Bólu­setningar­vott­orð grunn­bólu­settra að­eins tekin gild í níu mánuði

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Þeir sem hafa fengið þriðju sprautuna, eða aðra sprautu eftir Janssen, fá bólusetningarvottorð sem er ótímabundið. 
Þeir sem hafa fengið þriðju sprautuna, eða aðra sprautu eftir Janssen, fá bólusetningarvottorð sem er ótímabundið.  Vísir/Vilhelm

Nýjar reglur um bólusetningarvottorð taka gildi eftir rúma viku en þá verða bólusetningarvottorð grunnbólusettra aðeins tekin gild í um níu mánuði frá seinni skammti. Þeir sem hafa fengið örvunarskammt fá ótímabundið bólusetningarvottorð. 

Frá og með 1. febrúar næstkomandi verða bólusetningarvottorð vegna grunnbólusetningar aðeins tekin gild í 270 daga, eða um níu mánuði, frá því að grunnbólusetningu lauk. Á það við um einstaklinga sem hafa fengið eina sprautu af Janssen eða tvær sprautur af öðrum bóluefnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins en um er að ræða ákvörðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Fram að þessu hefur ekki verið gerð krafa um gildistíma bólusetningarvottorða á landamærum Íslands og annarra landa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Miðað er við tímann frá þeim degi sem seinni skammtur grunnbólusetningarinnar var gefinn. „Þetta þýðir að bólusetningarvottorð þess einstaklings sem lauk grunnbólusetningu 15. júní 2021 fellur úr gildi 12. mars næstkomandi,“ segir í tilkynningunni.

Hafi fólk fengið þriðju sprautuna eða örvunarskammt eftir bólusetningu með bóluefni Janssen á gildistíminn ekki lengur við og gilda þau bólusetningarvottorð ótímabundið á landamærum innan EES.

Landlæknir greindi sömuleiðis frá því í síðustu viku að frá og með mánaðamótum verði útgáfu bólusetningarvottorða fyrir þá sem hafa fengið staka bólusetningu með bóluefni Janssen hætt. Er það gert á þeim grundvelli að ein bólusetning með efninu teljist ófullnægjandi til að draga verulega úr smithættu eða alvarlegum veikindum.


Tengdar fréttir

Fyrri hug­myndir um Jans­sen löngu úr­eltar

Allar hug­myndir um góða virkni eins skammts af bólu­efni Jans­sen gegn kórónu­veirunni úr­eltust um leið og ný af­brigði veirunnar, delta og ó­míkron, tóku yfir. Gegn þeim virkar Jans­sen alveg eins og hin bólu­efnin; einn skammtur af Jans­sen verndar mun minna en tveir skammtar af öðrum efnum og því ákvað heil­brigðis­ráðu­neytið að líta það sömu augum og hin bólu­efnin þegar það breytti reglum um sótt­kví þrí­bólu­settra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×