Innlent

Willum stefnir á eigið frum­varp um neyslu­skammta

Heimir Már Pétursson skrifar
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ætlar að freista þess að leggja fram eigið frumvarp um lögleiðingu neysluskammta ávana- og fíkniefna.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ætlar að freista þess að leggja fram eigið frumvarp um lögleiðingu neysluskammta ávana- og fíkniefna. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra stefnir á að leggja fram eigið frumvarp um lögleiðingu neysluskammta ávana- og fíkniefna á yfirstandandi þingi. Þó komi til greina að semja um innihald frumvarps sem þingflokksformaður Pírata mælti fyrir á Alþingi í vikunni.

Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata mælti fyrir frumvarpi um lögleiðingu neysluskammta ávana- og fíkniefna í þriðja sinn á Alþingi í vikunni. Frumvarp fyrrverandi heilbrigðisráðherra svipaðs efnis dagaði uppi í nefnd á Alþingi rétt fyrir kosningar. Málið er þingmönnum því greinilega erfitt þótt stuðningur við það sé mikill úti í þjóðfélaginu og innan flestra flokka.

Skálað með löglegum neysluskömmtum í Kryddsíld Stöðvar 2. Halldóra Mogensen vill einnig lögleiða neysluskammta ávana- og fíkniefna.Vísir/Vilhelm

„Það hefur sýnt sig í þeim löndum þar sem afglæpavæðingin hefur verið prufuð að þetta fækkar dauðsföllum vegna ofneyslu vímuefna. Þetta dregur úr skaðanum sem verður af vímuefnaneyslu. Við ættum frekar að spyrja okkur hvers vegna að halda áfram með refsistefnu sem hefur sýnt okkur eftir áratuga reynslu að virkar ekki. Skilar ekki tilætluðum árangri heldur veldur skaða,“ sagði Halldóra í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudag.

Willum Þór Þórsson núverandi heilbrigðisráðherra stefnir að því að leggja sjálfur fram frumvarp í þessum efnum eins og Svandís Svavarsdóttir gerði þegar hún var heilbrigðisráðherra þrátt fyrir að þá lægi einnig fyrir frumvarp frá Halldóru og fleirum. Hann hefur kallað saman hóp fólks sem kemur að þessum málum og fulltrúa lögreglu sem sagt hafa erfitt að skilgreina neysluskammta. Það hafi kannski að hans mati komið í veg fyrir afgreiðslu málsins síðast liðið vor.

Heilbrigðisráðherra útilokar ekki samkomulag við Halldóru Mogensen og fleiri þingmenn um sameiginlegt frumvarp um lögleiðingu neysluskammta.Vísir/Vilhelm

„Við verðum að hlusta á þá sem eru á vettvangi að vinna með þessa hluti til að leiða okkur áfram með þetta. Ef það kemur betrumbætt inn í þingið er hægt að finna lausn á því. Þá tel ég að það eigi greiðari leið.”

En væri það ekki í anda góðrar samvinnu að sameinast um eitt frumvarp þannig að þetta sé ekki eitthvað þvælumál á milli stjórnar og stjórnarandstöðu þar sem stuðningurinn virðist liggja víða í flokkum?

„Jú auðvitað getur það alveg þróast þangað. Það gerist oft, sem betur fer,“ segir Willum Þór Þórsson.


Tengdar fréttir

Fíkn er sjúk­dómur!

Að sópa rykinu undir teppið er mörgum tamt ef ekki á að þrífa almennilega. Skyndilausnir henta stjórnmálamönnum yfirleitt betur heldur en framtíðarsýn og lausnir sem taka langan tíma.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.