Digne lagði upp gegn sínum gömlu félögum og Everton nálgast fallsvæðið

Emiliano Buendia skoraði eina mark leiksins í dag.
Emiliano Buendia skoraði eina mark leiksins í dag. James Gill - Danehouse/Getty Images

Þrátt fyrir að Rafael Benítez hafi verið látinn fara frá Everton á dögunum kom það ekki í veg fyrir að liðið tapaði enn einum leiknum í ensku úrvalsdeildinni í dag. Liðið tók á móti Aston Villa og þurfti að sætta sig við 1-0 tap á heimavelli.

Aston Villa byrjaði leikinn betur og hélt boltanum vel innan liðsins. Illa gekk þó að skapa færi framan af og því stefndi allt í að markalaust yrði þegar flautað yrði til hálfleiks.

Gestirnir í Astion Villa fengu þó hornspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiksins sem fyrrum Everton-maðurinn Lucas Digne tók. Spyrnan fann kollinn á Emiliano Buendia sem fleytti boltanum aftur fyrir sig og þaðan í netið.

Fagnaðarlætin drógu þó dilk á eftir sér því þegar leikmenn Aston Villa hópuðust saman til að fagna markinu kastaði stuðningsmaður Everton flösku inn á völlinn. Flaskan hafnaði í leikmönnum Aston Villa og Lucas Digne og Matty Cash lágu eftir og héldu um höfuðið. Þeir stóðu þó sem betur fer fljótt á lappir og leikurinn gat haldið áfram.

Everton var svo sterkari aðilinn í síðari hálfleik og sótti án afláts. Liðið fékk nokkur álitlega færi eftir fyrirgjafir, en vörn Aston Villa stóð sína vakt vel.

Raunar stóð hún vaktina svo vel að Everton tókst alls ekki að skora í leiknum og því varð niðurstaðan 1-0 sigur gestanna.

Aston Villa er nú með 26 stig í tíunda sæti deildarinnar eftir 21 leik. Everton situr hins vegar í 16. sæti með 19 stig, aðeins fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira