Árið 2017 voru Robinho og fimm aðrir Brasilíumenn fundnir sekir um að hafa hópnauðgað 22 ára albanskri konu á skemmtistað. Robinho var dæmdur í níu ára fangelsi fyrir rétti í Mílanó, áfrýjaði en hæstiréttur staðfesti dóminn svo endanlega í gær.
Alls óvíst er þó hvort Robinho fari í fangelsi. Hann er í Brasilíu og stjórnarskráin þar í landi heimilar ekki að borgarar þess verði framseldir. Ítalskir dómstólar geta þó farið fram á að Robinho sitji inni í fangelsi í Suður-Ameríku.
Robinho lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum. Hann lék hundrað leiki fyrir brasilíska landsliðsins og skoraði 28 mörk.
Robinho hóf ferilinn með Santos í heimalandinu en fór til Real Madrid 2005. Þar vann hann spænsku úrvalsdeildina í tvígang áður en hann var seldur til Manchester City. AC Milan keypti Robinho 2010 og varð ítalskur meistari með liðinu ári seinna. Síðustu ár ferilsins lék Robinho í heimalandinu, Kína og Tyrklandi.