Enski boltinn

Táningur bannaður fyrir lífs­tíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wycombe trónir á toppi ensku C-deildarinnar í knattspyrnu.
Wycombe trónir á toppi ensku C-deildarinnar í knattspyrnu. Wycombe Wanderers

Enska knattspyrnufélagið Wycombe Wanderers hefur sett 18 ára gamlan einstakling í lífstíðarbann eftir að hann réðst inn á völlinn er leikur Wycombe og Oxford United fór fram á laugardaginn var.

Wycombe er sem stendur á toppi ensku C-deildarinnar og gerir sér vonir um að spila í B-deildinni að nýju á næstu leiktíð. Liðið mætti Oxford United á Adams Park, heimavelli sínum, á laugardaginn og vann þægilegan 2-0 sigur.

Sigurinn er hins vegar ekki það sem lifir í minningunni eftir að ungur stuðningsmaður annars liðsins gerði sér lítið fyrir og fór inn á völlinn á meðan leik stóð.

„18 ára gamall einstaklingur hefur verið bannaður fyrir lífstíð fyrir að fara inn á völlinn er leikur var enn í gangi og ógna þar með öryggi leikmanna. Hegðun hans endurspeglar ekki hegðun stuðningsmanna félagsins sem er yfirhöfuð til fyrirmynda,“ segir í yfirlýsingu Wycombe.

Alls voru 8005 áhorfendur á leiknum og mönnum almennt heitt í hamsi. Rannsókn er í gangi á hegðun stuðningsmanna Oxford en þeir létu allskyns fúkyrði falla á meðan leik stóð.

Forsvarsmaður þeirra hefur staðfest að téður táningur hafi ekki verið á þeirra vegum og þá hefur Wycombe staðfest að táningurinn hafi ekki keypt miða á leiki félagsins í gegnum tíðina.

Hvað sem því líður er ljóst að drengurinn mætir ekki á fleiri leiki á Adams Park.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.