Innlent

Hefur mestar áhyggjur af tíundu bekkingum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bára Birgisdóttir, skólastjóri Seljaskóla.
Bára Birgisdóttir, skólastjóri Seljaskóla.

Um helmingur þeirra sem greinist með Covid-19 eru börn á grunn- og leikskólaaldri og ríflega fimm þúsund börn í Reykjavík voru fjarverandi úr skóla í gær. Skólastjóri hefur áhyggjur af tíundu bekkingum og hvaða áhrif skert skólahald mun hafa á þá.

1.383 greindust með kórónuveiruna í gær og er það næst mesti fjöldi smitaðra frá upphafi faraldursins. Upp undir helmingur smitaðra í gær voru börn á grunn- og leikskólaaldri en nú eru ríflega 3.640 börn í einangrun.

Seljaskóli hefur ekki farið varhluta af faraldrinum en þar hófst skólahald að hluta að nýju í dag eftir tveggja daga lokun.

„Þetta hefur mikil áhrif á alla. Ef maður talar út frá okkur stjórnendum þá erum við bara í bútasaumi og við erum á kvöldin og um helgar í smitrakningu þannig að þetta er að verða svolítið lýjandi, þetta er að verða svolítið langt tímabil,” segir Bára Birgisdóttir, skólastjóri Seljaskóla.

Þá hefur sömuleiðis þurft að loka leikskólum en í gær voru 717 starfsmenn grunn- og leikskóla í Reykjavík fjarverandi, og 5300 börn.

„Við erum farin að hafa áhyggjur af tíundu bekkingunum okkar. Þetta er farinn að verða langur tími sem við höfum þurft að vera í skertu skólastarfi allt þetta covid-tímabil. Núna er hálft skólaár eftir þar sem þau taka næsta skref í menntuninni, þannig að við þurfum að reyna að setja þau svolítið í forgang,” segir Bára.

Þau Kristín Arna, Gerður Tinna og Rúnar Gauti í áttunda bekk viðurkenna að þau líti svolítið á skert skólahald sem ákveðið frí en reyna þó að vera dugleg að læra.Vísir/Arnar

Áttundu bekkingar voru á meðal þeirra sem gátu mætt aftur í skólann í morgun, en þó þeir hafi ekki miklar áhyggjur af því að dragast aftur úr í námi, segja þeir að skert skólahald, sóttkví og einangrun hafi vissulega áhrif á námið. Þau Kristín Arna, Gerður Tinna og Rúnar Gauti viðurkenna að þau líti svolítið á skert skólahald sem ákveðið frí en reyna þó að vera dugleg að læra.

Fréttastofa leit við í Seljaskóla í dag:Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.